Einkaþjálfarinn Bob Harper, sem margir kannast við úr raunveruleikaþáttunum The Biggest Loser, hneig niður á æfingu í febrúar í fyrra og komst að því þegar hann vaknaði á spítalanum tveimur dögum seinna að hann hefði fengið alvarlegt hjartaáfall.
Bob var gestur í The Dr. Oz Show í gær þar sem hann talaði um þessa lífsreynslu og bætti við að hann hefði nýlega frétt af því að það hefði verið manneskja í ræktinni, sem þjálfarinn þekkti ekki neitt, sem hefði veitt honum fyrstu hjálp á staðnum.
Þá útskýrði Dr. Oz að teymið á bak við þáttinn hefði fundið þennan dularfull mann sem bjargaði lífi Bobs og spurði hvort þjálfarinn vildi hitta hann.
„Já!“ svaraði Bob umsvifalaust.
Ungi maðurinn, sem heitir Phillip, gekk þá inn í sjónvarpssalinn. Hafði þetta svo sterk áhrif á Bob, eins og sjá má í meðfylgjandi myndböndum, að hann kom ekki upp orði. Phillip er læknanemi og sagði í þættinum að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem hann veitti alvöru manneskju fyrstu hjálp. Fyrir þetta atvik hafði hann aðeins æft sig á dúkkum.
„Ég leitaði að púlsi, sem var veikur, og síðan hætti ég að finna hann. Og síðan, allt í einu – viltu heyra þetta?“ spurði Phillip þjálfarann.
„Já,“ sagði Bob.
„Allt í einu varðstu blár. Rosalega blár. Þannig að þá hóf ég fyrstu hjálp.“