Biggi lögga – Birgir Örn Guðjónsson – hefur hafið undirskriftasöfnun á vefsíðunni island.is.
Söfnunin er gerð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að malbikunarstöðin Höfða verði flutt á Álfhellu í Hafnarfirði, en Biggi býr skammt frá.
Eins og er hafa tæplega 700 manns sett nafn sitt á listann.
Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Biggi að nú sé „komið að okkur kæru Hafnfirðingar. Eftir umræðuna sem skapaðist um ætlun Reykjavíkurborgar um að setja malbikunarstöð í þeirra eigu í bakgarðinn hjá okkur skapaðist mikil umræða og ósk um undirskriftalista,“ segir Biggi og bætir við að „nú er undir okkur komið að sýna andstöðu okkar við þessar áætlanir.
Lesa má í greinargerð með undirskriftalistanum að Reykjavíkurborg ætli sér með að koma fyrir stóriðju með meðfylgjandi mengun í bakgarðinum á einu mest vaxandi íbúðahverfi Hafnarfjarðar, Ásvöllum.
Og bætir við:
„Borgin hefur fengið neikvæð svör við því að fá að setja upp malbikunarstöðina Höfða á
þessu svæði, en er nú búin að kaupa lóð af annarri malbikunarstöð og ætla að ganga þar inn með sína stöð,“ og nefnir að „mikil óánægja var meðal íbúa með uppsetningu þeirrar stöðvar á sínum tíma. Til stóð að borgin myndi setja Höfða á iðnaðarsvæði innan sinna borgarmarka en nú hefur verið ákveðið að koma henni frekar til Hafnarfjarðar í skjóli nætur.“
Í stuttu máli sagt þá mótmæla þeir sem undir listann skrifa þessum áætlunum; vilja að borgin hætti við að flytja stöðina í „fjörðinn fagra“ og finni henni stað í Reykjavík.
Biggi er harður á því að „íbúar Hafnarfjarðar geta ekki sætt sig við að Reykjavíkurborg ætli að flytja sína eigin malbikunarstöð í garðinn á einu stærsta íbúðahverfi bæjarins. Til stóð að borgin myndi flytja stöðina á sitt eigið iðnaðarsvæði en hætt var við það vegna mótmæla íbúa í næsta nágrenni við það. Reykjavíkurborg hafði ekki fengið jákvæð svör frá Hafnarfjarðarbæ um að fá að flytja stöðina þangað en nú ætlar hún „bakdyramegin“ inn með því að kaupa land af annarri malbikunarstöð sem var fyrir með leyfi.“
Segir Biggi að mikil óánægja hafi verið á sínum tíma með uppsetningu þeirrar stöðvar en íbúum var tjáð að það væri færanleg stöð sem auðvelt væri að taka niður.
„Það eru ekki boðleg vinnubrögð og lýsir algjörum yfirgangi að ætla að setja upp mengandi iðnað í bakgarðinum hjá nágrönnum sínum í næsta sveitarfélagi. Það leiðir einnig af sér aukna umferð og mengun að flytja malbikið í gegnum þrjú önnur sveitarfélög til að koma því til Reykjavíkur.“