Laugardagur 23. nóvember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Bjarni: „Ég sagði: Sjáumst í kvöld. Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er búinn að vinna úr þessu eins mikið og hægt er og því á ég auðvelt með að tala um þetta. Ef ég væri ekki týpan sem ég er myndi þetta eflaust vega þyngra á mér. En þessu verður aldrei snúið við.“

Þetta segir Bjarni Jónsson, 38 ára karlmaður sem missti móður sína fyrir eigin hendi þegar hann var aðeins þrettán ára gamall. Móðir Bjarna var spilafíkill. Bjarni ólst upp við mikið óöryggi og var settur í ýmsar aðstæður sem barn sem hann sér í dag að voru ekki eðlilegar.

Bjarni er í viðtali við Lokum.is. Lokum er árvekniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleikann um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar. Hér má lesa fleiri sögur.

„Mamma mín var einstæð móðir og vann sem píanókennari. Hún var yndisleg kona, ofboðslega listræn og viðkvæm. Ég á mjög bjartar minningar um hana. Henni þótti vænt um mig og yngri bróður minn en veitti okkur hins vegar ekki hefðbundið uppeldi því ég held að hún hafi einfaldlega ekki verið hæf til þess út af sínum vandamálum,“ segir Bjarni. Móðir hans glímdi við þunglyndi á yngri árum og var einnig beitt andlegu ofbeldi. Þegar að Bjarni var í kringum ellefu ára aldurinn byrjaði hún að spila í spilakössum.

„Við höfðum lítið á milli handanna fyrir en þegar hún byrjaði að spila fór ég hratt að finna fyrir áhrifum þess að peningar kæmu ekki inn á heimilið. Það var lítið um mat heima og við treystum á matargjafir frá ættingjum. Það kom fyrir að við urðum rafmagnslaus en ég og bróðir minn kóuðum rosalega mikið með henni og reyndum að fela fyrir öllum ættingjum hvað væri í raun í gangi,“ segir Bjarni.

Batterísýra í andlitið

Spilafíknin vatt hratt upp á sig í tilfelli móður hans.

- Auglýsing -

„Þetta ágerðist mjög hratt. Vandamálin í kringum þetta urðu sífellt fleiri. Stundum sat ég með mömmu, hún hágrátandi og ég að reyna að hugga hana en skildi ekki fyllilega hvað var í gangi. Versta minningin mín er þegar að hún kom heim af bar og einhver maður var búinn að skvetta batterísýru framan í hana því hún vildi ekki lána honum pening. Það sýnir bara hvað fólk er sturlað í spilakössum að það skvettir sýru á einhvern því viðkomandi vill ekki lána því pening,“ segir Bjarni. „Hún tók okkur bróður minn líka oft með á bari og aðra staði þar sem voru spilakassar og þar vorum við fastir á meðan hún spilaði, oft langt fram á kvöld. Á þeim tíma gerði ég mér enga grein fyrir hve afbrigðilegt þetta væri. Mér fannst þetta hálfpartinn gaman. Við gerðum eiginlega aldrei neitt því við áttum ekki pening en að sitja á bar að horfa á mömmu í spilakassa varð að einskonar fjölskylduiðju. Ég sé það í dag að þetta var mjög sjúkt ástand og þarna sátum við bræðurnir í kringum útigangsmenn og alls konar lýð. Stundum biðum við úti í bíl á meðan hún spilaði en oft var ég einn heima með bróður minn á meðan hún fór út. Þetta var fyrir tíma gemsanna þannig að ég var með símanúmer á öllum börum og stöðum með spilakössum svo ég gæti leitað að henni þegar að þess þurfti,“ bætir Bjarni við.

Bjarni hatar spilakassa og vill að þeim sé lokað.

Neitaði að heimsækja hana

Það gerðist oft að móðir hans lét sig hverfa daglangt, jafnvel lengur. En hún skilaði sér alltaf aftur heim – þar til einn örlagaríkan vordag.

- Auglýsing -

„Einn daginn, þegar að allt var komið í rugl, skutlaði hún mér í pössun heim til frænku minnar. Ég sagði: Sjáumst í kvöld, en hún svaraði mér ekki. Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi,“ segir Bjarni. Þá nótt kom móðir hans ekki heim. Eftir þriggja daga leit fannst hún loks í bíl nálægt Hveragerði. Hún hafði reynt að svipta sig lífi með því að taka of stóran skammt af lyfjum. Hún lifði sjálfsvígstilraunin af og var lögð inn á gjörgæsludeild.

„Ég var svo ógeðslega reiður að ég neitaði að fara upp á spítala að heimsækja hana. Tveimur vikum seinna lést hún úr lungnabólgu, eftirköstum sjálfsvígstilraunarinnar. Hún dó á föstudaginn langa og síðan þá hef ég hatað páskana. Ég sé enn mikið eftir því að hafa ekki farið upp á spítala til hennar. Ég var bara svo reiður. Hún skildi eftir poka með miðum til okkar sem ég hef ekki enn lesið.“

„Ég upplifi sátt“

Bjarni var þrettán ára þegar að móðir hans lést, eins og áður segir, og bróðir hans tíu ára. Frænka þeirra ættleiddi þá eftir að móðir þeirra lést og er Bjarni ævinlega þakklátur fyrir það. Höfnunartilfinningin við andlát móðurinnar var hins vegar nær óyfirstíganleg og leitaði Bjarni í vímuefni til að flýja raunveruleikann.

„Ég fór í tilfinningalega kleinu. Ég datt í alls konar rugl fram að átján ára aldri og var versta útgáfan af sjálfum mér í mörg ár. Þegar ég var átján ára fór ég í meðferð og þá var meðferðarfulltrúi sem kom því af stað að ég vann úr mínum málum. Smátt og smátt hef ég unnið mig upp úr þessu og blessunarlega upplifi ég enga skömm. Ég var neikvæður í garð æskunnar minnar mjög lengi, þar til ég sleppti tökunum og náði að skilja kvillann sem hrjáði mömmu mína. Þetta er búið að vera langt og strangt ferli.

Ég er alls ekki reiður út í hana. Hún býr alltaf í mér.

Ég skil ekki tilfinningar jafn vel og aðrir því ég eyddi svo miklum tíma í að loka á þær þegar ég átti að vera að þroskast sem einstaklingur. Ég er heppinn með vini og vandamenn og ættingjar mínir hafa geta gefið mér innsýn í hvernig fyrra líf móður minna var, sem hefur hjálpað mér að skilja aðstæðurnar hennar betur. Þegar ég varð eldri náði ég að skilja betur hvernig fíkn getur tekið öll völd,“ segir Bjarni og bætir við að hann finni ekki fyrir reiði í garð móður sinnar í dag.

„Ég er alls ekki reiður út í hana. Hún býr alltaf í mér. Ég upplifi sátt. Eins mikla sátt og ég get upplifað. Ég skil hana eftir því sem ég verð eldri, meira þegar ég kynnti mér hennar lífshlaup og hvernig spilafíkn virkar. Spilakassar kveikja á sömu heilastöðvum og hjá notendum kókaíns en þetta er skaðlegri neysla því henni fylgir ekki gerviverðlaun sem fíkniefnin veita. Spilafíklar fara því í enn meira niðurrif en fólk sem neytir fíkniefna. Skömm í kringum spilafíkn er svo mikil að fólk vill ekki tjá sig um þetta. Spilafíklar mæta ekki sama skilningi og aðrir fíklar að mörgu leiti. Spilafíklar upplifa sig eins og annars flokks manneskjur og fela fíknina meira en aðrir fíklar því þetta er svo mikið tabú.“

Siðlaust að græða á eymd

Bjarni er þakklátur Samtökum áhugafólks um spilafíkn fyrir að skapa vettvang fyrir spilafíkla og aðstandendur þeirra að tjá sig. Telur baráttuna gegn spilakössum verðuga.

„Síðan að mamma dó hef ég hatað spilakassa. Ég er bullandi á móti þeim enda hef ég horft upp á eyðilegginguna í kringum þá, ekki bara hjá mömmu heldur líka fólkinu í kringum hana. Spilakassamódelið er hannað til að fólk geti ekki unnið og er augljóslega að búa til djúpa fíkn. Mér finnst rosalega siðlaust að góðgerðarsamtök græði á eymd annarra. Svo hef ég heyrt alls kyns ljótar sögur af rekstraraðilum staða þar sem eru spilakassar þar sem þeir eru að gefa spilafíklum að borða og áfengi til að hvetja þá að halda áfram að spila. Það er eitthvað form af ómeðvitaðri mannvonsku. Þetta er óheilbrigt módel.

Það eru engar heilbrigðar lausnir á þessu vandamáli nema að loka spilakössum.“

Hér má lesa fleiri sláandi sögur á LOKUM.IS og á Facebook-síðu þeirra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -