„Það er mikið áhyggjuefni og ekki rétt að gera neitt annað en að búast við hinu versta,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra um yfirvofandi innrás Rússa í Úkraínu í viðtali við Morgunblaðið.
Tekur Þórdís Kolbrún undir áhyggjur Bjarna og segir að þyngra sé hljóðið í þeim ráðamönnum sem hún hafi fundað með síðustu daga.
Þá hefur verið greint frá því að Vladimir Pútín, forseti Rússlands og Joe Biden Bandaríkjaforseti hafa samþykkt að funda saman svo lengi sem ekki verði ráðist inn í Úkraínu.
Samkvæmt heimildum AEP-fréttastofunnar hefur endanleg tímasetning ekki verið ákveðin. Hafa stjórnvöld Bandaríkja lýst því yfir að þau myndu bregðast hratt og örugglega við ef verður að innrás Rússa í Úkraínu.
Hvað varðar rödd Íslands innan Atlantshafsbandalagsins segir Bjarni Benediktsson hana skýra og rétt sé að halda þeirri stefnu.
„Mér finnst að okkar rödd hafi lengi verið skýr alveg frá því að Krímskagi var innlimaður og okkar viðbrögð hafa verið í takt við það sem hefur verið að gerast hjá samstarfsþjóðum okkar í varnar- og öryggismálum. Það skiptir máli.“