Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Bjarni Bjarnason, hefur nú sagt upp störfum; en í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að Bjarni hafi lagt fram uppsögn sína á fundi stjórnarinnar í dag.
Hyggst Bjarni láta af störfum þann 1. mars – en þá eru tólf ár liðin síðan hann tók fyrst við starfi forstjóra.
Bjarni segir að með því að boða starfslok með góðum fyrirvara gefist stjórn Orkuveitunnar tækifæri til að hefja leit að arftaka hans.
Á næstunni mun ný stjórn taka við taumum hjá Orkuveitu Reykjavíkur; Bjarni segist búast við að þá fari í hönd stefnumótun fyrir samstæðuna til næstu ára.
Að mati Bjarna er mikilvægt að sú stefnumótun vinnist með eftirmanni hans; stjórn Orkuveitunnar samþykkti erindi Bjarna og þakkaði honum góðan fyrirvara til að finna fyrirtækinu eftirmann Bjarna.