Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Bjartmar segir stjórnvöldum að hundskammast sín: „Mér er annt um landið mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bjartmar Guðlaugsson og hljómsveitin Bergrisarnir eru að vinna að sinni annarri plötu og er fyrsta lagið „Á ekki eitt einasta orð“ farið í spilun. Bjartmar segir að það hafi fengið afburða góðar viðtökur. Bjartmar talar hér meðal annars um lagið, jarðarkaup útlendinga hér á landi, heiðarleikann í tóni og texta, stílleysið og fallegasta orðið.

„Við Bergrisarnir höfum alltaf verið rokkhljómsveit og sungið rokktexta. Við ákváðum að gera okkar aðra plötu og staðan er sú að við erum búnir að setja fyrsta lagið, „Á ekki eitt einasta orð“, í spilun sem hefur fengið afburða góðar móttökur. Textinn fjallar um mjög mikla vá sem varðar eignarhald á landinu og auðlindum þess. Nú er verið að selja útlendingum jarðir á Austurlandi og víðar um land. Það virðist enginn veita þessu mikla athygli; það virðast engir stjórnmálamenn vera að velta þessu fyrir sér. Þetta kemur lítið til umræðu og mér finnst vera óskaplega sérkennilegt að það skuli enginn stjórnmálamaður hafa neina stefnu eða skoðun á þessu máli. Svör þeirra eru að vísu að það sé ekki hægt að hefta kaup útlendinga á íslenskum fasteignum. Það er alveg furðulegt að þeir skuli reikna þetta sem fasteignir. Þetta er ekki eins og verið sé að selja tveggja herbergja íbúð í Vesturbænum. Málið er að þetta eru ekki fasteignakaup. Þetta eru jarðakaup. Það er búið að kaupa þvílíkt magn af landi að það er með ólíkindum og það er búið að ákveða alls konar hluti sem eru á huldu fyrir þjóðinni varðandi þessi mál. Þetta er eftirlitslaust og þeir ættu að hundskammast sín sem stjórna þessu landi.“

Bjartmar er spurður hvort hann sé mikill Íslendingur í sér og hvað Ísland sé í huga hans.

„Ég bý á þessari jörð og mér er annt um þessa jörð. Mér er annt um veröldina en Ísland er bara Ísland. Ég hef búið annars staðar á Norðurlöndunum og hef farið víða en að sjálfsögðu er ég Íslendingur. Ég er Íslendingur að hálfu en móðir mín var færeysk. Ísland er bara landið mitt, þjóðin mín, án þess að ég sé með neina þjóðernishyggju eða eitt eða neitt. Ég á það ekki til í mínu hjarta og hef aldrei staðið í því að vera í pólitískum flokki. Ég veit ekki einu sinni hvort ég muni kjósa í haust. Áherslan virðist vera lögð á að græða milljarða en fólkið sem býr til þessa milljarða er ekki að njóta þeirra nema örfáir vegna þess að launaskiptingin í landinu er með þvílíkum ólíkindum. Þetta er ekki líkt norræna módelinu. Þetta er líkt ameríska hagkerfinu þegar það lítur sem verst út.“

Skugginn og ljósið

Lögin hans Bjartmars hafa hljómað á íslenskum heimilum árum saman. Áratugum saman. Hvað ætli tónskáldið og söngvarinn leggi áherslu á þegar hann semur lögin og textana? Hver er stíllinn?

- Auglýsing -

„Ég legg fyrst og fremst áherslu á að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum mér, bæði í tóni og texta. Og ég geri engar sérstakar kröfur til þess að það sé neitt sérstaklega hlustað á mig en ef fólk hefur gaman af því sem ég er að gera og ef það skilur það sem ég er að gera sem ég skil varla sjálfur þá er það bara mjög gott. En ég er ekkert mjög æstur í það að vera að gapa framan í þjóðina að öðru leyti. Það má kannski segja að textinn sem ég sem sé „mitt komment“ en ég skrifa aldrei komment á Facebook eða á netmiðla.“

Bjartmar segist vera stíllaus í myndlistinni.

Covid-19-heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á tónlistarmenn eins og aðra og hefur Bjartmar þurft að fella niður tónleika eins og fleiri. „Ég er núna að semja nýtt efni sem fer á þessa plötu og svo er ég búinn að vera að mála nokkuð mörg málverk en ég er myndlistarmaður að mennt og skuldaði málverkunum dálítið mikinn tíma þannig að ég fékk tíma til þess að mála á meðan ég komst varla út úr húsi út af Covid-19.“

Hvað með stílinn í myndlistinni?

- Auglýsing -

„Ég er stíllaus maður í einu og öllu. Þegar ég mála myndir þá er mér alveg sama hvort ég teikna skopmyndir eða mála með olíulitum eða akríl á striga. Í lögum og ljóðum er ég rokkari en ég get líka búið til lög fyrir börnin. Ég er sem sagt stíllaus maður. Ég er búinn að vera með sömu hárgreiðsluna nær allt lífið og það er ákveðið stílleysi. Annars spilar þetta allt saman hjá mér – það er ljóðið, lagið og myndin.“

Ljóð, lag og mynd. Þetta er þrenning sem tengist æskunni. Drengnum Bjartmari sem þá var ekki stíllaus. Eða hvað?

„Þegar ég var lítill drengur þá var mikið lesið af sögum og ljóðum í minni fjölskyldu og ég hlustaði mikið á Suðursveitungana, frændur mína, þegar þeir komu til pabba og mömmu í heimsókn. Það síaðist inn í mig ljóðið og sérstaklega stakan. Þeir svöruðu með stökum. Og þessar stökur fylgdu mér og einhvern veginn hugsaði ég ljóðrænt þegar ég var krakki. Svo byrjaði ég snemma að teikna. Ég held að allt sem ég geri komi út frá ljóðinu. Að grunntónninn sé þar.“

Bjartmar fékk meiri tíma fyrir myndlistina í Covid.

Allt kemur frá ljóðinu. Listamaðurinn er spurður um uppáhaldsljóðið.

„Ég man það nú ekki alveg. Ég lærði svo mörg ljóð þegar ég var krakki. Til dæmis „Gömul vísa um vorið“ eftir Stein Steinarr. En ég hef heillast mest af ljóðum hans. Ég var vonlaus í skóla en átti auðvelt með að læra ljóð, sögur og að teikna. Einu glæpasögurnar sem ég les eru Íslendingasögur og hef verið  „hooked“ á þeim frá því að ég var unglingur.“

Hvað með fallegasta orðið? Hvert er það að mati Bjartmars?

„Ljós. Við þurfum ljós. Við þurfum líka á skuggunum að halda til þess að meta ljósið.“

Þetta er eins og með gleðina og sorgina. „Því lífið það er ljóðabrot og lagstúfur sem gjarnan fylgir með“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -