Þriðjudagur 12. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Bjóða Íslendingum milligöngu um staðgöngumæðrun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækið Tammuz Nordic hyggst frá og með hausti bjóða Íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun. Forsvarsmaður fyrirtækisins, Mikkel Raahede, er staddur hér á landi til að kynna verkefnið og hann fullyrðir að þessi þjónusta stangist ekki á við íslenska löggjöf.

Mikkel Raahede, forsvarsmaður Tammuz Nordic.

„Staðgöngumæðrun er ólögleg innan Íslands, en það er ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að fá staðgöngumæðrun erlendis,“ segir hann. „Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“

Þjónustan stendur bæði gagnkynhneigðum og karlkyns samkynja pörum til boða og sömuleiðis einstæðum körlum. Mikkel segir að samkvæmt íslenskum lögum sé hins vegar flóknara að hjálpa einstæðum konum og lesbíum þar sem barnið yrði skráð barn staðgöngumóðurinnar og því gæti kona lent í vandræðum með að fá að koma með það inn í landið. „Ef faðirinn er íslenskur, eins og þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör og tvo karlmenn, er það hins vegar ekkert vandamál,“ segir hann.

Tammuz er í samstarfi við læknastöðvar í Bandaríkjunum og Úkraínu þar sem valið á staðgöngumæðrum fylgir mjög ströngum reglum, að sögn Mikkels. „Þetta er mjög strangt mat,“ segir hann. „Við fáum mjög margar umsóknir frá konum sem vilja verða staðgöngumæður, en við höfnum fleirum en við tökum við. Í fyrsta lagi verða konurnar sem vinna fyrir okkur að vera mæður sjálfar, hafa gengið með og fætt barn áður en þær taka þetta að sér. Þær þurfa að undirgangast stranga læknisskoðun, bæði líkamlega og andlega. Þær mega hvorki drekka né reykja og við leggjum mikla áherslu á að þær hafi sterkt stuðningsnet í kringum sig.“

„Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“

Tammuz hefur starfað í tíu ár og börnin sem hafa fæðst fyrir milligöngu fyrirtækisins skipta þúsundum. Mikkel segir engin vandamál hafa komið upp hjá fyrirtækinu, engar lögsóknir og að fyrirtækið sé eitt hið virtasta í heimi á sínu sviði. Hann leggur áherslu á að í stefnu fyrirtækisins sé áherslan lögð á mannlega þáttinn, það sé stutt vel við bæði staðgöngumæðurnar og væntanlega foreldra, sem að sjálfsögðu fái að fylgjast með meðgöngunni og vera viðstaddir fæðinguna ef er óskað. „Við leggjum mikla áherslu á að styðja við bakið á foreldrunum og hjálpa þeim á allan hátt sem við getum,“ segir hann. „Staðgöngumæðrun hefur sums staðar illt orð á sér fyrir að vera gróðafyrirtæki, eða að ríka fólkið sé að nýta sér neyð fátækra kvenna, sem vissulega er raunin sums staðar, en hjá okkur snýst þetta fyrst og fremst um að hjálpa fólki að verða foreldrar.“

Sjálfur á Mikkel þrjú börn með eiginmanni sínum, sem er af íslenskum ættum, og þau eru öll fædd af staðgöngumóður. „Að vera foreldri er það stórkostlegasta sem nokkur upplifir,“ segir hann. „Ég held að við höfum öll þessa þörf fyrir að eignast eigin afkvæmi og það viljum við hjá Tammuz Nordic hjálpa fólki við.“

En hvernig snúa þeir karlar sem vilja nýta sér þjónustu fyrirtækisins sér í því að útvega eggjagjafa?

- Auglýsing -

„Það er ýmist í gegnum eggjabanka, eins og hjá gagnkynhneigðum pörum þar sem konan er ófrjó, eða að þeir fá konu sem þeir þekkja og treysta til að gefa egg,“ útskýrir Mikkel. „Hvort sem fólk velur erum við til staðar og aðstoðum, við setjum ekki fram neinar kröfur um að eggin komi úr eggjabanka sem við erum í viðskiptum við.“

Mikkel viðurkennir að það sé mjög dýrt að fara í gegnum þetta ferli, en fyrirtækið kappkosti að halda kostnaði eins mikið niðri og kostur sé. „Við erum til dæmis meðal ódýrustu staðgöngumæðrunarfyrirtækja í Bandaríkjunum,“ segir hann. „Þannig að við erum tiltölulega hagkvæmur kostur ef fólk vill fara þessa leið.“

Mikkel er í stuttu stoppi á Íslandi núna til að kanna hvernig landið liggur, en hann kemur aftur í byrjun október og mun þá halda kynningarfyrirlestur fyrir áhugasama um starfsemi fyrirtækisins og þann kost að að eignast barn með staðgöngumæðrun. „En ég er alltaf tilbúinn að ræða við þá sem vilja kynna sér málið og hvet fólk til að vera í sambandi við okkur og spyrja spurninga,“ segir hann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -