Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Bjóða upp á nýstárlega neytendaupplifun í Asíu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjávarútvegsfyrirtækið Blámar ehf. flytur út fiskafurðir á neytendamarkað í Asíu. Fjórar ­verslunarkeðjur í Hong Kong bjóða upp á vörurnar og markaðshlutdeild í Kína fer vaxandi, en Blámar er fyrsta íslenska sjávar­út­vegs­fyrir­­tækið sem í samstarfi við íslenska frumkvöðlafyrirtækið EFNI ehf. býður upp á rekjanleikamerkingar á vörum á neytendamarkaði í Asíu.

Ísland er alltaf að komast betur inn á kortið í Asíu en gæði og hreinleiki er eitthvað sem Asíubúar tengja gjarna við Ísland. Þess vegna liggja mikil verðmæti í því að geta sannað íslenskan uppruna á vörum okkar,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Blámars.

Að hennar sögn er Blámar líklega fyrsta íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem selur afurðir sínar milliliðalaust á neytendamarkað í Asíu. „Kína hefur verið að berjast gegn röngum merkingum á matvælum með tilliti til uppruna og fleiri hluta. Upp–runi vöru er orðinn gríðarlega mikilvægur,“ segir hún og bendir á að vantraust neytenda gagnvart upprunamerkingum sé orðið útbreitt vandamál meðal almennings í Kína. „Kínverjar eru einfaldlega hættir að trúa á uppruna á þeim vörum sem eru í boði. Þeir upplifa svo mikið af fölsunum og rangmerkingum,“ útskýrir Valdís en Blámar hefur um nokkurt skeið leitað leiða til að sanna uppruna á sínum vörum á einfaldan og grípandi hátt.

Fann lausnina hjá ís­lensku frumkvöðla­fyrir­tæki
Valdís fann það sem hún leitaði að þegar hún sá kynningu Heiðu Kristínar Helgadóttur, framkvæmdastjóra EFNI ehf. á rekjanleikatækni sem fyrirtækið hefur hannað fyrir vörumerki sitt Niceland Seafood. Það varð til þess að Blámar og EFNI leiddu saman hesta sína í tilraunaverkefni þar sem rekjanleikahugbúnaðurinn er notaður til að tengja neytendur betur við uppruna fiskafurða Blámars á markaði í Kína; í gegnum hughrif og upplifun.

Tekur neytendur inn í nýjan heim
Efni hefur hannað forrit sem ekki aðeins gerir neytandanum kleift að rekja uppruna vörunnar nákvæmlega, allt frá því fiskurinn er veiddur í íslenskri landhelgi og þar til hann er kominn í verslanir, heldur er einnig boðið upp á sjónræna upplifun. „Vörurnar eru merktar með sérstökum QR-kóðum sem neytandinn getur skannað með snjallsíma sínum í versluninni. Þar fær hann ekki aðeins staðfestingu á uppruna heldur einnig einstakt ferðalag með myndum af Íslandi, hreinni íslenskri náttúru, brjáluðum sjó og hreinu lofti. Þetta tekur neytandann inn í annan heim sem er orðinn svo stór hluti af matarinnkaupum,“ segir Valdís og bætir við að einnig sé hægt að finna hlekki inn á fjölbreyttar uppskriftir enda sé íslenskur fiskur, s.s. ýsa, karfi og Atlantshafsþorskur, mörgum í Asíu framandi. Heiða bætir við að QR kóða tækni sé notuð í miklu meira mæli í Asíu en til að mynda í Evrópu og Bandaríkjunum og þess vegna séu flestir snjallsímar nú búnir þannig að ekki þurfi sérstakt app, heldur er hægt að skanna QR kóða með því einu að beina myndavélinni að þeim. „Þetta hefur gjörbreytt möguleikum okkar á að nýta þessa tækni og vera fyrst á markað með hagnýta lausn sem styður við vörumerkið sem við erum að byggja upp í Bandaríkjunum.“

Vilja aðeins það besta
Blámar er fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á neytendamarkaði í Asíu með slíkar rekjanleikamerkingar. „Það ætti að gefa okkur samkeppnisforskot. Millistéttin í Kína er það vel stæð að fólk velur aðeins það besta fyrir börnin sín, fæðuöryggi og hollusta skiptir þetta fólk mun meira máli en hvað varan kostar. Það er því algjört lykilatriði að við getum sannað hvaðan vörurnar okkar koma,“ segir Valdís en tekur fram að enn sé verið að fullþróa kerfið. „Fyrsti gámurinn með þessum QR-merktu vörum verður sendur út í september og ég er að verða mjög spennt yfir því að sjá hvernig viðtökurnar og viðbrögðin verða.“

Mynd / Heiðdíd Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -