Á laugardag var Björgvin Magnússon heiðraður á Úlfljótsvatni, en Björgvin sem verður 96 ára þann 29. september er einn líklega elsti skáti í heimi.
Björgvin er skátaforingi og hefur fengið það staðfest að hann sé elsti starfandi skáti í heimi, en hann var lengi mótandi í starfinu á Úlfljótsvatni og eru saga hans og staðarins samofin.
Ögmundur Jónasson, fyrrum þingmaður og ráðherra, segir frá athöfninni á heimasíðu sinni. Þar segir hann að fjölskylda hans, fjölskylda Jónasar B. Jónssonar, hafi viljað heiðra Björgvin á 95 ára afmæli hans í fyrra með því færa skátaskálanum að Úlfljótsvatni að gjöf hlyn sem gróðursettur yrði Björgvin til heiðurs.
„Veðurguðirnir sáu um að gera daginn eftirminnilegan – ekki lognmollulegan heldur frekar á hinn kantinn – hressilegan,“ segir Ögmundur.
„Björgvin er 96 ára, í fullu fjöri, skrifar skrautskrift, ekur bíl og jafn ákafur um framgang lífsins og nokkur ungur maður. Svo er hann pabbi hennar Eddu, okkar ástsælu leikkonu.“
Í fyrra þegar Björgvin fagnaði 95 ára afmæli buðu skátar til samkomu á Úlfljótsvatni honum til heiðurs.
„Þetta ofurmenni keyrir um allt eins og herforingi, mætir í vinnu á hverjum morgni, er í Oddfellow og stundar skátafundi (er líklega einn elsti starfandi skáti í heimi!) og hagar sér almennt eins og mjög glaðvær unglingur,“ sagði Edda um föður sinn af því tilefni. „Ég fæ aldrei fullþakkað að hafa fengið að alast upp hjá þessum kærsleiksríka og einstaka pabba.“