- Auglýsing -
Björn Birgisson, þjóðfélagsrýnir hefur látið hina ýmsu ráðamenn og pólitíkusa fá það óþvegið með harðorða pistlum á Facebook. Nú er það Gunnar Smári Egilsson, aðalmaðurinn í brúnni hjá Sósíalistaflokknum sem Björn skrifar um.
Björn er afar ósáttur við Gunnar Smára og hefur hent honum af vinalistanum sínum. Ástæðan er dónaskapur Gunnars Smára er Björn sagði honum frá sinni kenningu um ástæðu þess að flokknum gekk eins illa í síðustu kosningum og raun ber vitni. Hér er pistillinn í heild sinni:
„Gunnari Smára hent út.
Stundum fara hlutir úr böndunum vegna orða sem látin eru falla.
Hef eins og margir fleiri leitað eftir skýringum á óvæntri niðurstöðu Sósíalistaflokksins í kosningunum í haust.
Mín niðurstaða var og er sú að Gunnar Smári hafi farið offari í skrifum og málflutningi sínum og hann sé því ein helsta ástæða þess að fylgið virtist hrynja af flokknum síðustu þrjár vikurnar fyrir kjördag.
**********
Hann hefur tekið þeirri ályktun minni afar illa og mjög stutt hefur verið hjá honum í niðrandi köpuryrði í minn garð.
Ég er ýmist genginn til liðs við skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins, handbendi Samfylkingarinnar eða farinn að aðhyllast nýfrjálshyggjuna að ekki sé minnst á hversu takmarkaður ég er og óhæfur til skrifa og orðaskipta.
Svo fátt eitt sé nefnt af orðaleppunum.
Ég einfaldlega nenni ekki að sitja undir svona þvættingi, kvaddi hann og henti honum af vinalistanum, lokaði vel á eftir og hefði hent lyklinum væri hann til staðar!“