Sunnudagur 12. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Björn landslagsarkitekt: „Garðurinn er meira eins og framlenging af heimilinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Garðarnir eru sífellt að verða meira eins og íbúð, þannig að þá daga þegar veður er gott, getur fólk búið utandyra jafnt sem innan,“ segir Björn Jóhannsson, landslagsarkitekt hjá arkitektastofunni Urban Beat.

„Það eru til dæmis komin smáhýsi í garða þar sem geta verið gufubað, lítið eldhús eða jafnvel útiskrifstofa. Svo eru það þessi spa-svæði sem verða æ skemmtilegri. Þar geta verið heitur pottur, kaldur pottur, sturta og gufubað. Svo höfum við verið að vinna með útieldhús sem er í raun grillsvæði undir þaki og fer það eftir því hvað húsráðendur eru öflugir við eldamennskuna, hvort þar sé gasgrill, kolagrill eða jafnvel pítsuofn og vín- og bjórkælar.

Sumir vilja hellur og geta þá eldað graut úti í garði. Breytingin á hugtakinu garður á síðustu árum hefur því farið frá því að vera skógur í borg eða lystigarður, í það að vera framlenging á íbúðinni þar sem hægt er að bralla svipaða hluti utandyra og innan.“

Björn Jóhannsson

 

Björn leggur áherslu á að þeir sem hafa hug á garðhönnun gefi sér tíma í skipulagningu verkefnisins.

- Auglýsing -

„Þegar það liggur fyrir að það eigi að gera eitthvað verulega flott í garðinum þá ætti að hafa samband við fagmann með góðum fyrirvara. Hægt er að panta hönnun hjá landslagsarkitekt að hausti þannig að þegar vorið kemur þá eru teikningar, verktaki og það sem þarf að panta í garðinn allt saman klárt.“

Björn segir að það verði æ algengara að sett séu þök yfir svæði auk þess sem margir kjósa pergólu – mannvirki reist úr staurum og láréttum sperrum – og má segja að hún sé eins konar opið þak – og markísur og þá sérstaklega markísur og hitara, en fólk getur þá frekar setið úti í garði á vorin og haustin án þess að kuldinn bíti. „Þetta þýðir að kvöldin fara að verða meira spennandi tími til útiveru.“

Björn Jóhannsson

- Auglýsing -

Björn segist varla hanna garð í dag án þess að koma þar að lýsingarhönnun. „Um leið og lýsingin er komin, þá breytast þessi svæði í undraveröld; ég tala nú ekki um ef maður er að nota stýringar þar sem hægt er að dempa og auka ljósið og breyta um lit.“

Björn Jóhannsson

 

Auðveldara að rækta ávaxtatré

Þegar kemur að plöntuvali segist Björn mestmegnis velja runna og lágvaxin tré. „Ég er með nokkurn veginn sama lista og ég notaði fyrir 20 árum. Þetta eru plöntur sem ég veit að þrífast hér á landi og þola þá að vera í þessum görðum, en sums staðar þarf maður að spá í vindinn; hvort það sé mikil norðanátt eða hvort það komi salt inn á lóðina út af sjávarroki. Aðalmálið með gróðurinn er þó, að það sé eitthvað sígrænt í honum og eitthvað skemmtilegt sem blómstrar snemma ásamt öðru sem blómstrar yfir sumarmánuðina. Það má heldur ekki gleyma að spá í haustliti, en við eigum gríðarlegt úrval af þannig plöntum.“

Björn segir að það sé orðið auðveldara en áður að rækta ávaxtatré og nefnir í því sambandi kirsuberjatré og eplatré, þótt það þurfi að passa upp á að gróðursetja trén á skjólsælum stað.

„Svo hef ég verið að vinna með það sem ég kalla berjaskóg. Það er svæði þar sem berjarunnum er plantað nokkuð þétt. Þar nota ég harðgerð rifs, sól- og stikilsber og runna með bláum berjum sem kallast hunangsviður. Til að lágmarka viðhald nota ég gjarnan runna sem hylja beðin vel og virka þá sem eins konar arfavörn. Þar má nefna hélurifs, kirtilrifs, skriðmispil og jafnvel bergfléttu þar sem aðstæður leyfa.“

Björn Jóhannsson

Björn segir að ef útieldhús er í garðinum sé sniðugt að rækta kryddjurtir í 90-110 cm hæð. „Þetta kalla ég kryddjurtabarinn. Þá er hægt að rölta yfir og klippa smásteinselju eða dill til að skutla með í salatið eða á steikina.“

Að lokum vill Björn undirstrika að framkvæmdir séu vel skipulagðar. „Þar leikur teikning höfuðhlutverkið, en hún er góð framkvæmdaáætlun sem kemur í veg fyrir tvíverknað og annan vandræðagang.“

 

Björn Jóhannsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -