Björn Sigurðsson fyrrverandi varðstjóri, fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal 9. maí 1934 og lést þann 5. júlí síðast liðinn í Kópavogi. Foreldrar hans voru þau séra Sigurður Stefánsson, prófastur og vígslubiskup á Möðruvöllum í Hörgárdal og frú María Ágústsdóttir, cand.phil. Eiginkona Björns var Kristín Bögeskov, djákni og var hún með BS í íslensku og dönsku, f. í Reykjavík, 17. ágúst 1935 og dáin 15. ágúst 2003. Hann lætur eftir sig fimm uppkomin börn.
Björn var formaður Lögreglufélags Reykjavíkur og formaður Hestamannafélagsins Gusts. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, félagsstörfum og skrifaði hann nokkrar greinar í Morgunblaðið og smásögur.
„Þegar hinir merku skákmenn, Fischer og Spassky, voru að kljást við flotta borðið í Laugardalshöllinni 1972 tók pabbi vaktir þar, flestir lögreglumenn með mikinn áhuga á skák og pabbi auðvitað hinn ánægðasti að fá vaktir þarna. Honum datt þá í hug að leyfa mér að koma við á milli skáka, gekk með mér upp að borðinu, bauð mér sæti og við tókum nokkra leiki. Þarna er hann klárlega að gæta að því að drengurinn fengi snert af sögunni í rauntíma og þessa aðferð notaði ég sjálfur á mín börn ef færi gafst við uppeldi þeirra. Ekki ætla ég að fara yfir fleiri atriði en vona að þessar stuttu lýsingar nái að sýna hvaða hug ég bar til pabba, en svona vil ég minnast hans og þegar ég sat við banabeð hans fyrr í mánuðinum voru það akkúrat slíkir smápunktar úr æsku sem höfðu mest áhrif á mig og kölluðu fram söknuð“.
Björn Ágúst Björnsson.
„Óvænt rekst ég á að hann Stóri-Björn sé allur. Björn var stór í sniðum hvar sem á hann var litið. Höfðingi í lund og hvers manns hugljúfi að mér fannst alla tíð. Við urðum samskipa til Noregs í skógræktarferð 1952. Hann vakti athygli mína fyrir það að vera sjóveikari en aðrir menn báðar leiðir yfir hafið en þá voru ekki flugferðir algengar hjá alþýðu. Við fórum utan með missjóneraskipinu Brandi V sem var þurrt skip og Guðrækilegt og lítið fjör um borð. En heim fórum við Heklunni þar sem allt flaut í lystisemdum þessa heims og nýmæla fyrir unglinginn. Okkar kynni hófust hins vegar ekki fyrr en ég fór að brjótast í að byggja yfir bólgnandi fjölskylduna. Eftir árangurslausar lóðarumsóknir í fæðingarbæ mínum Reykjavík endaði ég með að hitta mann í Kópavogi sem vantaði að selja húshelming sem hann ætlaði að byggja á lóð með minkabúi á við Hlíðarveg. Þar var kominn sá sjóveiki aftur. Gamli Sveinn útvegaði mér steypuúttekt og með því gerðust kaupin. Björn fór að slá upp. En hann vann eins og margir lögregluþjónar við mótarifrildi á frívöktum og var því aldrei langt undan landi í byggingabransanum alla tíð. Bæði byggði sjálfur og vann með öðrum. Húsið reis og inn komst ég á þrítugsafmælinu fyrir kraftaverk og hjálp tengdafólks og vina. Þar bjuggum við fjölskyldan þar til að húsið sprakk utan af okkur. Í allan þennan tíma bjuggum við á neðri hæð hjá Stóra-Birni og Kristínu Bögeskov konu hans og fjórum börnum. Aldrei bar skuggann á í þessu sambýli og var þó talsverður samgangur milli hæðanna. Björn var formaður í Gusti og kom okkur til að byggja hesthús með félögum sem við áttum lengi. Björn hafði mikinn húmor og stundum laumulegan en kersknilausan. Tók vel í nefið og kunni að njóta lífsins þegar svo bar undir. Stundum kom bróðir hans sr. Ágúst í heimsókn og fögnuðu þeir hóglega góðum kynnum. Elsti sonurinn Sigurður lærði söðlasmíði og voru þeir feðgar með söðlasmíði Þorvaldar lengi vel í bílskúrunum á Hlíðarveginum þar sem ég fékk húsaleiguna skilvíslega goldna í tveimur hnökkum árlega. En börnin okkar voru sum jafnaldra og oft líf í tuskunum. En við hjónin áttum neðri hæðina í góðu samkomulagi við hjónin á efri hæðinni lengi eftir þetta. Björn þekkti aragrúa fólks og kunni manna best að umgangast erfiðleika. Hann sagði mér sig yfirleitt vilja fara einn til að fást við æstan múg þar sem honum gengi þá betur að tala fólk til en með óvaninga sér við hlið. Bauð bjálfunum kannski í nefið til að byrja með. En ekki var víst heiglum hent að takast á við hann Stóra-Björn ef menn létu ekki segjast með góðu. En hann var friðarins maður fyrst og fremst þar til annað þraut. Erfiðast væri að skera niður börn.
Mér fannst ávallt birta þegar ég hitti Björn, hann var svo skemmtilegur í viðræðu og léttur í fasi. Seinni árin strjáluðust kynnin. Hann lenti í sorg með missi sinnar elskulegu konu af slysförum og ég hef heyrt að heilsu hans hafi hrakað eftir það.
Minningin um þennan hugljúfa mann endist okkur sem þekktu hann. Traustur og hlýr með samúðarstórt hjarta“.
Halldór Jónsson.
Mannlíf vottar aðstandendum innilega samúð. Blessuð sé minning Björns.