Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, segir í samtali við Fréttablaðið ljóst að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, ætti að stíga til hliðar á meðan mörgum spurningum er enn ósvarað um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka:
„Mér finnst rosalega augljóst að fjármálaráðherra á ekki að vera neins staðar þar sem hann er mögulega fyrir einhverju ferli í rannsókninni á þessu. Það er svo augljóst að hann er að bregðast sinni skyldu, sinni ábyrgð, gagnvart þeirri ákvarðanatöku sem hann á að fara í,“ segir Björn og vísar til þess að ráðherra hafi ekki óskað eftir meiri upplýsingum þegar fjöldi tilboða í hlut ríkisins lá fyrir:
„Bankasýslunni var augljóslega hent undir rútuna, það var algjört klúður. Það var mjög augljóst frá upphafi og í rauninni var þáttur fjármálaráðherra bara ekkert skoðaður. Það er þarna gagnrýni á að það hafi verið augljós mistök við undirbúning og það er fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra sem er þarna í undirbúningnum og hann er þarna í ákvarðanatökunni um verð, magn og svoleiðis.“
Björn segir áhugavert að svo virðist sem fjármálaráðherra hafi fengið rangar upplýsingar varðandi söluna:
„Það er ekki nægilega vel útskýrt í skýrslunni en það virðist vera að hann hafi fengið rangar upplýsingar, sem er rosalega alvarlegt að ráðherra fái rangar upplýsingar fyrir svona stóra ákvarðanatöku en þegar upplýsingarnar eru á þann hátt að það eru 150-200 tilboð að ráðherra biðji ekki um að fá nákvæmari upplýsingar. Mér finnst þetta vera algjör áfellisdómur yfir ferlinu. Mér finnst það augljóst að klúðrið er það mikið að ég þarf ekki frekari rannsókn til þess að segja að þetta er greinilega eitthvað sem varðar ráðherraábyrgð, það er mín skoðun. Pólitískt er þetta nóg fyrir mig. Hvort að síðan lagalega séð, hvort að ábyrgðin komi inn, það er flóknara,“ segir Björn, sem er ekki áhyggjufullur yfir því að skýrslunni hafi verið lekið til fjölmiðla sólarhring áður en hún birtist almenningi:
„Áður birti Ríkisendurskoðun þessar skýrslur strax en þingið bað um auka tíma fyrir þingmenn til þess að lesa skýrsluna áður en fjölmiðlar væru farnir að segja um niðurstöður skýrslunnar. Þá hefði þingið smá tíma áður en það væri búið að reka hljóðnema framan í þau ólesin að koma með athugasemdir, en það var síðan ekkert vandamál. Þetta er klassísk afvegaleiðing, að kalla þetta brot á trúnaði en þessi trúnaður er ekki neitt. Þetta eru smá tafir á birtingu, tímabundinn trúnaður fyrir ákveðið svigrúm fyrir þingmenn sem var þegar til staðar hvort eð er. Ég hef engar áhyggjur af þessu, þetta er ekki trúnaðarbrestur fyrir fimmaura,“ sagði Björn að lokum.