Leikkonan María Thelma fer með hlutverk í kvikmyndinni Arctic á móti Mads Mikkelsen. Hún segir það hafa verið mikla upplifun að vera viðstödd frumsýningu myndarinnar á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
„Ég viðurkenni það að vera viðstödd á frumsýningu fyrstu myndarinnar sem maður leikur í og það á stærstu og virtustu kvikmyndahátíð heimi var alveg grámagnað. Mér þótti vænt um að hitta alla sem komu að gerð hennar eftir allan þennan tíma og svo var auðvitað spennandi að sjá loksins lokaútkomuna á hvíta tjaldinu eftir alla vinnuna sem fór í hana,“ segir María Thelma, þegar hún er spurð hvernig tilfinning hafi verið að vera viðstödd frumsýningu myndarinnar á Cannes í Frakklandi nú á dögunum.
Arctic, sem flokkast sem svokölluð hrakfaramynd, fjallar um mann sem verður strandaglópur á Norðurskautsvæðinu eftir hræðilegt flugslys. Hann telur sig vera hólpinn þegar þyrla er send honum til bjargar en hlutirnir fara öðruvísi en á horfir og við tekur ófyrirsjáanleg atburðarás. Það er enginn annar en danski stórleikarinn Mads Mikkelsen sem fer með aðalhlutverkið en íslenskir áhorfendur ættu að kannast við hann úr kvikmyndum á borð við Jagten, Rogue One og Casino Royale. María Thelma fer með veigamikið hlutverk í myndinni en kveðst ekki geta rætt persónu sína að neinu ráði nema ljóstra upp söguþræðinum. „Það litla sem ég get sagt er að við fáum ekki að vita mikið um persónurnar, það er lítið talað og nánast engin baksaga. Við fáum varla að vita hvað persónurnar heita. Áherslan er á hvernig þeim gengur að reiða sig af í þessum „absúrd“ og hræðilegu aðstæðum.“
„Mads var algjörlega laus við hroka. Mætti mér alltaf á jafningjagrundvelli, virti mínar skoðanir á verkefninu og bar mikla virðingu fyrir minni vinnu og mér þótti ofboðslega vænt um það.“
Laus við stjörnustæla
Spurð hvort hún hafi verið stressuð fyrir að leika á móti stórstjörnu eins og Mikkelsen hristir María Thelma höfuðið og segist ekki hafa haft neinar fyrir fram hugmyndir eða skoðanir á leikaranum áður en tökur hófust. Hins vegar hafi munað öllu hvað hann hafi verið jarðbundinn og þægilegur í samskiptum. „Mads var algjörlega laus við hroka. Mætti mér alltaf á jafningjagrundvelli, virti mínar skoðanir á verkefninu og bar mikla virðingu fyrir minni vinnu og mér þótti ofboðslega vænt um það. Samstarfið einkenndist af einstaklega góðu trausti og skilyrðislausri virðingu. Það var bara æðislegt að vinna með honum, alveg ótrúlega góð og jákvæð reynsla. Við náðum mjög vel saman og urðum góðir félagar,“ segir hún og bætir við að það hafi auðveldað svolítið vinnuna því tökurnar, sem fóru fram við Nesjavelli og Fellsendavatn skammt frá Þórisvatni í apríl í fyrra og stóðu yfir í 19 daga, hafi verið strembnar og tökudagarnir frekar ófyrirsjáanlegir. „En við Mads fórum vel yfir handritið og vorum stöðugt að minna hvort annað á hvaða sögu við værum að segja og pæla í því hvernig við gætum gert senunar sterkari,“ segir María sem á meðal annars að baki hlutverk í sjónvarpsþáttunum Föngum og nokkrum stuttmyndum, auk þess sem hún starfar um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu.
Ánægð með viðtökurnar
Þrátt fyrir að hafa landað hlutverkinu í Arctic má segja að María Thelma sé enn að stíga sín fyrstu spor í bransanum. Hún útskrifaðist af leiklistarbraut Listaháskóla Íslands 2016 en segist þó ekki alltaf hafa ætlað að verða leikkona og hafi í raun ekki leitt hugann að því fyrr en í framhaldsskóla. „Ég sá aldrei fyrir mér að ég ætti eftir að verða leikkona. það var ekki fyrr en að ég byrjaði á leiklistarbraut í FG þegar ég var 16 ára sem ég ákvað fyrst að leggja leiklistina fyrir mig og ég hef ekki litið um öxl síðan.“
Hvað var það eiginlega við leiklistina sem heillaði? „Ég hef nú gaman af flestum listforum,“ svarar hún hugsi, „en ætli leiklistin sé bara ekki það listform sem mér finnst komast næst kjarna hins mannlega eðlis.“
En skyldi það hafa einhvern tíma hafa hvarflað að henni þegar hún var í námi í leiklistinni að einn góðan veðurdag ætti hún eftir að standa á rauða dreglinum í Cannes. „Nei, ég velti því ekki einu sinni fyrir mér að ég ætti eftir að vinna eitthvað sértaklega í erlendum kvikmyndum,“ segir hún og hlær. „Hvað þá að ég kæmi til með að frumsýna mínu fyrstu bíómynd á stærstu og virtustu kvikmyndahátíð í heimi.“
Arctic hefur almennt hlotið góða dóma og er til að mynda fullt hús stiga eða 100 prósent á kvik-myndasíðunni Rotten Tomatoes. Sjálfri fannst Maríu Thelmu svolítið erfitt að njóta myndarinnar til fullnustu á frumsýningunni því hún var stöðugt að spá í hvers vegna sumum atriðum var sleppt og öðrum bætt við og fleiru í þeim dúr. Hún þurfi því eiginlega að sjá hana aftur til að geta myndað sér skoðun á henni. „Ég er samt mjög stolt af henni,“ tekur hún ákveðin fram. „Og ánægð með viðtökurnar.“
Þegar leikkonan unga er spurð hvaða verkefni séu síðan fram undan verður hún hins vegar svolítið dul. „Það er margt spennandi í gangi. En eins og staðan er þá er of snemmt að segja frá því strax.“
Aðalmynd: Mads og María Thelma náðu vel saman á meðan tökum stóð og eru góðir félagar í dag.