Grant Whal, bandarískur íþróttablaðamaður, hneig niður og lést í Katar í gærkvöldi, er hann var að fylgjast með leik Argentínumanna og Hollendinga á heimsmeistaramótinu í fótbolta.
Það er BBC sem greinir frá.
Samkvæmt fyrstu fregnum gæti Whal hafa fengið hjartaáfall, en það hefur ekki verið staðfest.
Wahl var aðeins 48 ára gamall.
Á mánudaginn greindi Whal frá því á heimasíðu sinni að hann hefði verið lasinn í 10 daga og væri kominn á sterk sýklalyf vegna lungnabólgu.
Hann sagði líkama sinn hafa sagt hingað og ekki lengra, eftir að hann hafði verið kvefaður um langt skeið; leitað til læknis og var greindur með lungnabólgu.
Whal vakti mikla athygli fyrr á heimsmeistaramótinu þegar hann reyndi að komast inn á knattspyrnuleikvang í Katar í bol með regnbogafána til stuðnings hinsegin fólki.
Bróðir Grant, Erik Wahl, trúir ekki að veikindi hafi dregið bróðir sinn til dauða. Erik er samkynhneigður og hann segist vera ástæðan fyrir því að Grant mætti í regnbogabolnum; hann er viss um að bróðir sinn hafi verið myrtur.
Hann sagði í tilfinningaþrungnu myndbandi á samfélagsmiðlum að Grant hafi fengið morðhótanir eftir atvikið á HM.