Mikil átök voru á framhaldsaðalfundi Blaðamannafélags Íslands í gærkvöld þar sem tekist var á um breytingartillögur á lögum félagsins. Sú tillaga sem fór verst í fólk var sú að afnema skuli atkvæðisrétti öryrkja og eldri blaðamanna sem komnir eru á eftirlaun.
Aðför að mannorði
Fundurinn hófst með hvelli þegar borið var upp vantraust á Sigríði Dögg Auðunsdóttur formann sem hefur verið í umræðunni vegna meintra skattsvika sinna. Þá hefur Sigríður verið gagnrýnd fyrir það sem sumir kalla aðför að Hjálmari Jónssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra, sem stjórn félagsins lýsir sekan um misferli í fjármálum eftir að milljónum króna hefur verið eytt í að rannsaka fjárreiður félagsins undir hans stjórn. Þrátt fyrir áfellisdóm stjórnarinnar mun Hjálmar ekki verða lögsóttur en situr uppi með aðför að mannorði sínu. Hjálmar mætti á fundinn en sagði það vera í síðasta sinn að óbreyttu sem hann kæmi á þann vettvang. Í tillögunni sem Fríða Björnsdóttir og fleiri báru upp var vakin athygli á fjármálaóstjórn í félaginu og ábyrgð stjórnar í þeim efnum. Um þriðjungur fundarmanna studdi tillöguna sem var felld.

Miklar umræður spruttu um þá tillögu stjórnar að afnema atkvæðisrétt öryrkja og eldri borgara. Sá ásetningur var fordæmdur af eldri fundarmönnum sem töldu um hreina aðför ræða. Elsti blaðamaður á Íslandi og einn flutningsmanna tillögunnar, Fríða Björnsdóttir, fordæmdi þessi áform. Pétur Þorsteinsson vakti athygli á gjánni á milli eldri félagsmanna og hinna. Hann sagði að boðaðar lagabreytingar væru „Lög unga fólksins“. Lúðvík Geirsson, fyrrverandi formaður Blaðamannafélagsins, bar fram sáttatillögu um að lagabreytingin fæli í sér að eldri félagsmenn hefðu ekki atkvæðisrétt í málum sem snúa að vinnudeilum og kjarasamningum Sú tillaga ver felld með talsverðum mun. Til að fá fram samþykki á lagabreytingum þurfti hreinan meirihluta. Í skriflegri og leynilegri atkvæðagreiðslu voru þær tillögur felldar og stjórnin varð þar með undir.
Mikil heift var á fundinum og augljóst að félagið er á barmi klofnings. Meðal þeirra sem höfðu sig mest í frammi voru Heimir Már Pétursson, fréttamaður Stöðvar 2, og Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Sögu. Þá flutti Agnes Bragadóttir, fyrrverandi blaðamaður Moggans, eldmessu þar sem hún fordæmdi framgöngu Sigríðar Daggar og stjórnar hennar.
Fyrirvari: Höfundur er fullgreiðandi félagi í Blaðamannafélagi Íslands.