Í tilkynningu frá Bláa lóninu kemur fram að „undanfarna mánuði höfum við verið minnt á krafta náttúrunnar og þau áhrif sem þeir hafa óumflýjanlega á okkur öll.
Við höfum gripið til tímabundinna lokana á þessu tímabili en líka nýtt tímann til þess að endurskoða viðbragðsáætlanir og bæta innviði svæðisins.
Þar sem veðurskilyrði eru óhagstæð í dag, sunnudaginn 14. apríl, og hafa mögulega neikvæð áhrif á loftgæði verða allar okkar starfsstöðvar lokaðar til kl. 14.
Við sendum uppfærðar upplýsingar ef aðstæður breytast. Takk fyrir skilninginn.
Sundhnúkagígaröðin er virk en hraunflæði ógnar ekki innviðum við starfsstöðvar Bláa Lónsins.
Helstu þættir sem hafa áhrif á starfsemi Bláa Lónsins nú eru áhrif eldgossins á loftgæði.
Við höfum stækkað net gasmæla okkar í og við Bláa Lónið. Eins er veðurathugunarstöð hjá Bláa Lóninu þar sem veður og vindar hafa úrslitaáhrif á loftgæði svæðisins.
Með þessum hætti getum við vaktað aðstæður og safnað mikilvægum gögnum í rauntíma og hrint viðbragðsáætlunum í framkvæmd ef gögn gefa tilefni til þess.
Við höldum áfram að fylgja tilmælum yfirvalda til hins ítrasta og fylgjumst vel með stöðunni í samstarfi við yfirvöld og sérfræðinga.
Við vinnum ötullega að því alla daga að tryggja öryggi starfsfólks og gesta, lærum af reynslunni og nýtum nýja þekkingu á uppbyggilegan hátt.
Upplýsingar um stöðuna á Reykjanesi, loftgæði og aðstæður svæðisins má nálgast hjá Veðurstofu Íslands, Almannavörnum og á Loftgæði.is.“