Ganga á Úlfarsfell til stuðnings Krabbameinsfélagi Íslands verður farin klukkan 18 í dag. Lagt verður upp frá bílastæðinu í Úlfarsárdal kl. 18. Gangan er á vegum Ferðafélags Íslands. Tilgangurinn er sá að styðja við félagið og í þágu þeirra sem glíma við krabbamein.
Við upphaf göngunnar flytja Ólöf Sívertsen, forseti Ferðafélags Íslands, og Hlíf Steingrímsdóttir, læknir og formaður stjórnar Krabbameinsfélagsins, stutt ávörp. Gangan er ókeypis en mælst er til þess að þátttakendur styrki Krabbameinsfélagið með framlagi að eigin vali. Með því að smella hér má styrkja félagið.
Á hæsta tindi Úlfarsfells tekur hópurinn lagið og gerir léttar æfingar.
Ferðafélag Íslands hefur verið með reglubundnar lýðheilsugöngur á Úlfarsfell á miðvikudögum. Að þessu sinni verður sú ganga hluti af styrktargöngunni. Gangan á fjallið tekur eina og hálfa lukkustund. Alls verða gengnir fjórir kílómetrar. Hækkun er um 220 metrar. Gangan er því á færi langflestra. Allir eru velkomnir.
Mælst er til þess að fólk klæðist bleiku. Þá er gott að fólk hafi höfuðljós og sé vel klætt. Veðurspá fyrir kvöldið er góð. Reiknað er með að göngunni ljúki um kl. 19:45.