Neytandi sem verslaði tvo poka af rifnum osti frá MS varð undrandi þegar í ljós kom að annar pokinn kostaði 599 krónur en hinn 822 krónur. Á pokunum er 37 prósent verðmunur. Eini munurinn á umbúðunum er sá að á öðrum segir „ódýrt“ en hinum „tilboð“. Pokarnir voru á sama stað í hillu hjá versluninni Skagfirðingabúð.
Aðilinn sem keypti pokana merkti Sunnu Gunnars Marteinsdóttur sem starfar hjá MS í innlegg sem sett var inn samfélagsmiðla, kallaði eftir svörum frá henni um málið. Svar Sunnu var eftirfarandi: „Þarna er MS rifinn ostur á tilboði sem var pakkað + merkt á tilboði og venjulegar pakkningar. MS selur vörurnar í heildsölu frá sér og eftir það gildir frjáls álagning verslana“
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum eru pokarnir nánast alveg eins og nánast ómögulegt fyrir neytendur að þekkja þá í sundur. Ættu ódýrari vörur eða vörur á tilboði til neytenda ekki að skera sig úr fremur en að vera nákvæmlega eins útlítandi, maður skyldi ætla það.
Einnig kemur upp sú spurning, af hverju er verið á sama tíma að selja bæði tilboðs rifinn ost og ódýran rifinn ost? Það má vera að heildsöluverðið frá MS sé tilboðsverð og ódýrt til verslana, en eftir að þær hafa lagt á vörurnar hljóma orðin tilboð og ódýrt eins og kaldhæðni.