Fjölmiðlamaðurinn Sindri Sindrason segist hafa verið smeykur við að koma út úr skápnum. Þegar á hólminn var komið hafi óttinn hins vegar reynst algjörlega ástæðulaus og í raun sé það eiginlega bara blessun að hann skuli vera hommi.
„Ef ég væri ekki hommi þá væri ég í hópi sem mætti ekki tjá sig, eða svona. Þá væri ég bara gagnkynhneigður, hvítur ágætlega menntaður karlmaður. Þetta er eiginlega bara blessun,“ segir Sindri léttur í bragði við Viktoríu Hermannsdóttur í útvarpsþættinum Segðu mér á Rás 1.
Í þættinum segist Sindri nánast aldrei hafa upplifað fordóma vegna kynhneigðar sinnar. Hann hafi frekar fundið fyrir fordómum vegna pólitískra skoðana sinna. Það sé miklu verra að segjast vera hægri sinnaður heldur en hommi á Íslandi. Það séu meiri fordómar fyrir því.
Í þættinum talar Sindri um ferilinn, fjölskylduna sem hann þráði alltaf að eignast, fordómaleysið og drauminn sem rættist þegar hann eignaðist fósturdóttur.