Spennan vegna örlaga oddvita stjórnmálaflokkanna heldur áfram. Í Norðausturkjördæmi er Kristján Þór Júlíusson, leiðtogi Sjálfstæðismanna og sjávarútvegsráðherra, búinn að lýsa yfir uppgjöf og mun hætta. Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og næsti maður á lista vill taka við keflinu. Í Norðvesturkjördæmi er bændahöfðinginn Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðismanna og vill vera það áfram. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamálaráðherra, er ósammála Haraldi og hefur óskað eftir fyrsta sætinu og skorað hann á hólm. Slagurinn á milli þeirra verður blóðugur og er ekki síst áhugaverður fyrir Teit Björn Einarsson, fyrrverandi alþingismann, sem af hógværð biður um annað sæti á listanum. Þarna getur því allt gerst …