Fjórða árið í röð heldur Björgvin Gunnarsson, blaðamaður Mannlífs, ljóðakvöld undir nafninu Ljóðagestir Björgvins. Verður það haldið að vanda í Tehúsinu, Egilsstöðum í kvöld klukkan 20:00 en húsið má taka 20 manns í sal. Þá verður einnig hægt að horfa á Ljóðagestina í beinni á Facebook og Instagram reikning Tehússins.
Það var fyrir fjórum árum að Björgvin, sem skrifar ljóð undir listanafninu Lubbi klettaskáld, var að vonast eftir ljóðakvöldi á Héraði í jólafríinu en þangað fer hann á hverjum jólum. En engin ljóðakvöld voru plönuð þannig að Björgvini datt í hug að halda bara eitt slíkt sjálfur. Nafnið kom ósjálfrátt enda ansi nálægt nafni jólatónleika Björgvins Halldórssonar, Jólagestir Björgvins. Þó að nöfnin séu svipuð eru kvöldin ekki á neinn hátt eins. Á meðan Bo keyrir mikið á glæsilegar skreytingar og glamúr er nafni hans fyrir austan með mjög látlaust og rólegt kvöld. Segja má að Ljóðagestir Björgvins hafi slegið í gegn og er nú orðin að hálfgerðri jólahefð á Héraði en kvöldið er alltaf haldið á milli jóla og nýárs.
Í ár eru gestir Björgvins fjölbreyttir eins og áður en þar má finna bæði ungt fólk og eldra, þekkt skáld og óþekkt, hefðbundin og óhefðbundin og allt þar á milli. Þá verður leynigestur með tónlistaratriði.
Þau sem koma fram eru eftirtalin ljóðskáld:
Árni Friðriksson
Ása Þorsteinsdóttir
Hulda Sigurdís Þráinsdóttir
Lubbi klettaskáld
Jónas Reynir Gunnarsson
Kristján Ketill Stefánsson
Stefán Bogi Sveinsson
Þorsteinn Bergsson
Leynigestur