Traust flugmálayfirvalda víðs vegar um heim á öryggi nýju 737 Max-flugvélarinnar frá Boeing fer þverrandi þótt fyrirtækið sjálft segist bera fullt traust til vélarinnar. Eftir að hafa þráast við í þrjá daga ákváðu bandarísk flugmálayfirvöld að láta undan þrýstingi og kyrrsetja vélarnar.
Boeing 737 Max-vélunum var ætlað að leysa hina klassísku og vinsælu 737-tegund af hólmi. Mikil eftirvænting skapaðist meðal flugfélaga þar sem 737 Max-vélarnar eru mun sparneytnari og hagkvæmari í rekstri. Pantanir hrönnuðust enda upp og hefur Boeing tekið yfir 5 þúsund pantanir.
En svo fór að síga á ógæfuhliðina. Í október hrapaði flugvél Lion Air í Jövuhaf undan ströndum Indónesíu. Frumniðurstöður benda til að flugmenn hafi brugðist rangt við þegar skynjari bilaði og nýr eiginleiki í sjálfstjórnunarbúnaði vélarinnar lét flugvélina taka dýfu þar sem talin var hætta á ofrisi. Boeing gaf í kjölfarið út leiðbeiningar til flugfélaga um þennan nýja eiginleika og taldi sig hafa komið í veg fyrir vandamálið.
Á sunnudaginn hrapaði svo önnur 737 Max-vél, nú í Eþíópíu. Þótt enn sé ekki vitað um tildrög slyssins þykja aðstæður um margt svipa til flugslyssins í Indónesíu. Skjálfti fór um flugheiminn og varð Kína fyrst landa til að kyrrsetja vélarnar. Flugfélög og flugmálayfirvöld víða um heim voru hikandi í fyrstu, þeirra á meðal Icelandair sem fullyrti að 737 Max-vélarnar væru öruggar og að ekki stæði til að kyrrsetja þær.
En traustið á vélunum fór hratt þverrandi og á þriðjudaginn tilkynntu bresk flugmálayfirvöld að vélarnar fengju ekki að fljúga í þeirra lögsögu. Evrópska flugöryggisstofnunin fór sömu leið og fjölmörg önnur ríki og flugfélög fylgdu í kjölfarið, þeirra á meðal Icelandair. Bandaríska flugmálastofnunin, FAA, og Boeing virtust harðákveðin í að halda vélunum á lofti en þegar Kanada tillkynnti um kyrrsetningu á miðvikudaginn létu þau loks undan þrýstingi. Var það ekki síst vegna gagna sem samgönguráðherra Kanada birti þegar hann tilkynnti ákvörðun sína og sýndu að mikil líkindi væru með flugslysunum tveimur. Boeing og FAA hafa í kjölfarið verið sökuð um að taka viðskiptahagsmuni fram fyrir öryggi farþega og ljóst að trúverðugleiki þeirra hefur beðið hnekki vegna málsins.
Gullkálfur Boeing
Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir Boeing. Hlutabréf í Boeing tóku mikla dýfu þegar markaðir opnuðu á mánudaginn og hafa haldið áfram að lækka eftir því sem kyrrsetningum hefur fjölgað. Um miðja viku hafði virði félagsins fallið um 25 milljarða dollara. 737 Max-vélarnar hafa reynst Boeing mikill gullkálfur og hefur engin flugvélategund selst jafnhratt á svo skömmum tíma. Komi í ljós að kerfisgalli er í vélinni væri það þungt högg fyrir Boeing sem á í gríðarharðri samkeppni við Airbus.
Boeing djúpt í stjórnmálunum
Málið er líka hápólitískt. Boeing er einhver öflugasti bakhjarl margra stjórnmálamanna og í fyrra eyddi fyrirtækið 15 milljónum dollara í hagsmunagæslu í Washington DC. Það eru einnig tengsl við Trump og ríkisstjórn hans. Patrick M. Shanahan, starfandi varnarmálaráðherra, er fyrrum stjórnandi hjá Boeing og á dögunum tók Nikki Heley, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sæti í stjórn Boeing. New York Times greindi frá því í vikunni að forstjóri Boeing hafi hringt persónulega í Donald Trump vegna málsins.
Spurningar vakna um framleiðsluna
Eftir flugslysin tvö hafa vaknað spurningar um ákvarðanir sem teknar voru í framleiðsluferli Boeing 737 Max-vélanna. Í ferlinu kom í ljós að ný staðsetning þotuhreyfla 737 Max-vélanna, sem var frábrugðin hefðbundnum 737-vélum, varð til þess að hættan á ofrisi jókst. Þess vegna var sjálfstýringarbúnaðurinn, sá sem nú er til skoðunar vegna slyssins í Indónesíu, uppfærður sem átti að leiðrétta það. Hvorki FAA né Boeing töldu hins vegar ástæðu til að upplýsa né þjálfa flugmenn sérstaklega varðandi þennan eiginleika.
Flugmenn sendu inn kvartanir
Fjölmiðlar vestanhafs greindu frá því í vikunni að bandarískir flugmenn hafi sent inn fjölda kvartana til yfirvalda vegna flughæfni 737 Max-vélanna. Allar kvartanirnar beindust að margumræddum sjálfstýringarbúnaði og lutu að því að flugvélin ætti það til að taka dýfu skömmu eftir flugtak. „Sú staðreynd að flugvélin þarfnast svo mikilla inngripa til að fljúga henni ætti að hringja bjöllum,“ segir í kvörtun eins flugmannsins.