Lokun bókabúðar Máls og menningar við Laugarveg er þriðja lokun verslunarinnar á rétt rúmum áratug. Fullyrt er að um tímabundna lokun bókabúðarinnar sé að ræða og verður kaffihúsinu í sama húsnæði einnig lokað um óákveðinn tíma.
„Heyrðu fínt, takk fyrir það og bless.“
Greint er frá lokuninni í dag á Facebook-síðu verslunarinnar en þar þakkar starfsfólk viðskiptavinum fyrir sýndan skilning og afsakar ónæðið sem af lokuninni skapast. Stefnt er að enduropnun ef marka má síðuna þar sem áhugasamir geta fylgst með.
Bókabúð Máls og menningar var stofnuð árið 1940 og var lengst af í eigu samnefnds útgáfufélags. Verslunin hefur verið til húsa við Laugarveg 18 en undir merkjum Pennans varð bókaverslun gjaldþrota í húsnæðinu árið 2009. Skiptum á þrotabúi félagsins lauk árið 2011 þar sem ekkert fékkst upp í um 7.5 milljarða kröfur.
Við gjaldþrot Pennans losnaði húsnæðið og Bókmenntafélag Máls og menningar varð til í ágúst 2009, þegar Kaupangur, eigandi húsnæðisins, keypti rekstur Bókabúðar Máls og menningar. Tveimur árum síðar, í febrúar 2011, var starfsfólki skyndilega tilkynnt um gjaldþrot félagsins og að verslunin yrði ekki opnuð daginn eftir. Gjaldþrot félagsins nam 112 milljónum króna og fékkst lítið upp í þær kröfur.
Mánuði síðar var tilkynnt að eigandi bókabúðarinnar Iðu við Lækjargötu, Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, tæki við rekstrinum er hún tók á leigu bæði húsnæðið og nafn Máls og menningar. Nú er svo komið að bókabúðin lokar enn á ný og óljóst um framhaldið.