Laugardagur 4. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

Bókin snarhækkar í verði í höndum hins opinbera

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Endanlegur kostnaður allt að 40 prósent hærri en verðmiðinn segir til um.

Fjöldi Íslendinga kaupir bækur í erlendum netverslunum og fær þær sendar heim eða á næsta pósthús. Þegar gengið er frá kaupunum er oftar en ekki tekið fram að sendingarkostnaður sé innifalinn en svo bíður reikningur þegar bókin er komin á pósthúsið. Sá reikningur er iðulega mun hærri en gefinn var upp við kaupin. Sé bókin hins vegar keypt á rafrænu formi leggjast engin slík gjöld ofan á.

Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts.

Þetta misræmi stafar að því að ýmiss konar gjöld eru lögð á vöruna við komuna til landsins. Þannig er umsýslugjald eitt þessara gjalda sem Íslandspóstur innheimtir fyrir hverja sendingu sem ber aðflutningsgjöld. Í skriflegu svari frá fyrirtækinu segir: „Í umsýslu felst meðal annars skráning sendinga, geymsla í 7 daga, tilkynningar og önnur umsýsla.“ Aðflutningsgjöld er annar kostnaðarliður sem leggst ofan á bókina, en það eru  „öll þau gjöld sem viðskiptavinir þurfa að greiða til ríkisins af sendingum sem eru fluttar til landsins.“ Virðisaukaskattur er greiddur af öllum sendingum sem fluttar eru inn til landsins nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum og reglugerðum.

„Íslandspóstur hefur heimild fyrir þessari innheimtu í alþjóðapóstsamningum frá 2005 þar sem þessi kostnaður er ekki innifalinn í póstburðargjöldunum sjálfum enda er skráning mjög misjöfn milli landa.“

Ef heildarverðmæti sendinga er innan við 40 þúsund krónur og innflutningur er ekki í atvinnuskyni er hægt að gera einfalda tollskýrslu. Annars er gerð hefðbundin tollskýrsla. „Á Íslandi gæti bæst við kostnaður vegna þjónustu sem tollmiðlarar eða farmflytjendur veita, t.d. vegna tollskýrslugerðar eða heimkeyrslu. Ekki eru lögð innflutningsgjöld á slíka þjónustu en hún er hins vegar virðisaukaskattskyld,“ segir í upplýsingum frá Tollstjóra en Íslandspóstur er í þessu tilfelli tollmiðlari.

Aðspurður um hvort Íslandspóstur fái mikið af athugasemdum frá viðskiptavinum vegna gjaldanna segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, að svo sé í raun ekki. „Almennt er það þannig að stærstur hluti viðskiptavina veit af umsýslugjaldi þegar pantað er en það er auðvitað alltaf eitthvað um ábendingar.“ Þá tekur hann sérstaklega fram að umsýslugjöld séu ekki sendingarkostnaður. „Heldur greiðsla fyrir vinnu Íslandspósts, þessi gjöld reiknast á allar sendingar erlendis frá sem bera aðflutningsgjöld.“

Rukkað fyrir að leita í sendingunni

Þráinn Bertelsson vakti athygli á því að kostnaðurinn við bók sem hann pantaði að utan reyndist 40 prósentum hærri en reikningurinn frá bóksölunni sagði til um. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Einnig kemur fyrir að viðskiptavinir taka eftir sérstöku gjaldi sem innheimt er fyrir að leita að reikningi en það er gert ef upplýsingar um verð vörunnar er ekki að finna utan á pakkanum. „Allar innfluttar vörur þarf að tollafgreiða. Lýsandi innihaldslýsing er mikilvæg til þess að hægt sé að setja vöruna í réttan tollflokk. Ef fullnægjandi upplýsingar um verðmæti eru utan á sendingunni er hún tollafgreidd strax og send til kaupanda,“ segir í svari frá Íslandspósti.

- Auglýsing -

Brynjar Smári segir fyrirtækið hafa heimild fyrir þessari gjaldtöku þrátt fyrri að verslað sé frá löndum sem falla undir fríverslunarsamninga enda sé ekki um eiginlega tolla að ræða. „Íslandspóstur hefur heimild fyrir þessari innheimtu í alþjóðapóstsamningum frá 2005 þar sem þessi kostnaður er ekki innifalinn í póstburðargjöldunum sjálfum enda er skráning mjög misjöfn milli landa,“ segir hann.

 Berjast gegn „ósanngjörnum“ gjöldum

Af umræðum á Netinu má þó sjá að neytendur eru langt í frá meðvitaðir um öll þessi aukagjöld. Einn þeirra er rithöfundurinn Þráinn Bertelsson sem vakti athygli á því að kostnaðurinn við bók sem hann pantaði að utan reyndist 40 prósentum hærri en reikningurinn frá bóksölunni sagði til um. Það var eftir að aðflutningsgjöld, umsýslugjald og leitarkostnaður hafði bæst við. Þráinn furðar sig enn fremur á því hvers vegna bækur á rafrænu formi lúta ekki sömu lögmálum.

„ … gott dæmi um skattheimtu hins opinbera sem býr til allt of mikinn kostnað og vesen miðað við hverju hún skilar í ríkissjóð.“

- Auglýsing -

Fjölmargir tjá sig við þessa færslu Þráins og segja svipaða sögu af viðskiptum sínum á Netinu. Gylfi Magnússon, hagfræðiprófessor og fyrrum ráðherra, segir þetta „gott dæmi um skattheimtu hins opinbera sem býr til allt of mikinn kostnað og vesen miðað við hverju hún skilar í ríkissjóð.“ Þessu mætti breyta á tiltölulega einfaldan hátt með lögum þannig að ekki þyrfti að greiða gjöld ef verðmætið er yfir tiltekinni viðmiðunarupphæð. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, leggur einnig orð í belg og segir samtökin margoft hafa bent á og mótmælt þessum aukagjöldum. Þau muni halda áfram að berjast gegn þessum og „öðrum ósanngjörnum gjöldum sem sífellt er verið að varpa á herðar neytenda“.

Hvað rafbækurnar varðar fengust þær upplýsingar frá Tollstjóra að þær beri engin slík gjöld þar sem ekki er um innflutning að ræða í skilningi tollalaga, þar eð engin vara kemur til landsins. Fyrirtæki sem selja rafbækur á Netinu verða hins vegar að standa skil á virðisauka til Ríkisskattstjóra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -