Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Bólusetning ekki hafin vegna skorts á bóluefni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Afhending á fyrsta skammti bóluefnis við hlaupabólu tefst fram í mars. Reglubundnar bólusetningar við veirunni áttu að hefjast um áramótin.

Töf hefur orðið á því að reglubundnar bólusetningar vegna hlaupabólu hefjist. Hefja átti bólusetningar um áramótin en af því varð ekki. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við Mannlíf að töf hafi orðið á fyrstu sendingu efnisins til landsins. Sesselja Guðmundsdóttir, sviðsstjóri ung- og smábarnaverndar hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, segir að gott hefði verið að geta byrjað um áramót en ekkert sé við þessu að gera. „Við tökum á þessu þegar efnið kemur til landsins,“ segir hún.

Samningar um kaup á umræddu bóluefni voru gerðir fyrir áramót. Þórólfur segir að þá hafi legið fyrir að afhending á fyrstu sendingu myndi tefjast. Hann segir von á efninu í mars og að reglubundnar bólusetningar vegna hlaupabólu á ungbörnum geti hafist í kjölfarið. Það er lyfjafyrirtækið GSK, eða GlaxoSmithKline sem framleiðir efnið.

Embætti landlæknis greindi frá því í sumar að almennar bólusetningar við hlaupabólu hæfust í byrjun árs 2020. „Öll börn sem fædd eru 1. janúar 2019 eða síðar fá tvo skammta á öðru æviári (við 12 og 18 mánaða skoðanir) endurgjaldslaust. Hlaupabóla er algengur veirusjúkdómur sem nánast allir fá einhvern tímann á lífsleiðinni.

Þórólfur segir að vitað hafi verið að fyrsta afhending á efninu myndi dragast.

„Það hefði verið gott að geta byrjað strax,“ segir Þórólfur um töfina. Hann bendir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem töf verði á afhendingu bóluefna. Framleiðendur þeirra séu fáir og því geti komið upp töf á framleiðslu og dreifingu. „En við fengum fullvissu frá framleiðanda að þetta yrði ekki viðvarandi ástand. Við vissum að það yrði dráttur á fyrstu afhendingu en síðan á það ekki að vera vandamál.“

Getur verið alvarlegur sjúkdómur

- Auglýsing -

Þórólfur segir að þetta skref hafi lengi verið í deiglunni og að þrýstingur hafi verið á að hefja bólusetningar við hlaupabólu. „Þetta er sjúkdómur sem allir fá og hann getur verið alvarlegur. Auk þess kemur bólusetningin í veg fyrir ristilsjúkdóm sem fólk sem hefur fengið hlaupabólu getur fengið síðar á ævinni.“

Aðspurður segir Þórólfur að hlaupabóluveiran lifi alla tíð í fólki sem hefur fengið hlaupabólu. Hún geti brotist fram seinna á lífsleiðinni og valdið staðbundnum útbrotum í ristli. Það geti verið mjög hvimleiður sjúkdómur.“ Þórólfur segir bóluefnið sem keypt hafi verið öruggt og gott en kostnaður vegna þessara bólusetninga muni hlaupa á 40-50 milljónum króna árlega. „Það hefur tekið tíma að fá þetta í gegn og tryggja fjármagn.“ Hann segir að lögð verði áhersla á að öll börn verði bólusett.

Þórólfur segir aðspurður að þessi töf muni skapa einhver vandamál fyrir heilsugæsluna. Í mars þurfi að hefjast handa við að bólusetja þau börn sem áttu að vera bólusett án endurgjalds frá áramótum. „Þetta krefst smáendurskipulagningar af þeirra hálfu. En það er ekkert við því að gera.“

- Auglýsing -

Sesselja segir við Mannlíf að á þessari töf verði tekið þegar bóluefnin koma til landsins. „Það hefði verið gott að geta byrjað 1. janúar en við þessu er ekkert að gera,“ segir hún.

Börnin sprautuð þrisvar í 12 mánaða skoðun

Bólusetning við hlaupabólu hefur það í för með sér að börn sem fá allar bólusetningar fá þrjár sprautur í stað tveggja við 12 mánaða skoðun. Við 18 mánaða skoðun fá börn tvær sprautur í stað einnar. Hún segir mismunandi hvernig börn bregðast við sprautum. „Það er aldrei gaman að láta sprauta sig en ég held að þetta verði ekki vandamál. Þetta kemur í ljós.“ Hún er ánægð með að bólusetja eigi með reglubundnum hætti fyrir hlaupabólu.

Börn munu, þegar bóluefnið kemur til landsins, fá þrjár sprautur við 12 mánaða aldur, í stað tveggja áður.

 

Lyfjaskortur er vaxandi vandamál

„Það er alltaf bagalegt þegar skortur verður á lyfi en raunin er sú að almennt gengur vel að bregðast við lyfjaskorti hér.“ Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Mannlífs um stöðu lyfjaskorts á Íslandi. Á vefsíðu stofnunarinnar er að finna langan lista yfir lyf sem ekki eru fáanleg hér. Á meðal þeirra lyfja sem nýlega hefur verið tilkynnt um að vanti eru fimm milligramma töflur af morfínlyfinu Contalgin og Zovir augnsmyrsli.

Í svarinu segir að lausnin við skorti á tilteknum lyfjum feli oft í sér að læknar þurfi að ávísa undanþágulyfi (óskráðu lyfi) en ferlið í kringum slíkar lyfjaávísanir taki lengri tíma en ella.

Brexit hefur áhrif á framboð Contalgins á Íslandi.

Mannlíf spurði meðal annars hvort eitthvert lyf bráðvantaði á Íslandi í dag. „Stutta svarið er nei,“ segir í svari stofnunarinnar. „Þegar tiltekin lyf skortir leysa önnur lyf þau yfirleitt af hólmi, allavega tímabundið. Það geta verið sömu lyf í öðrum styrkleikum, samheitalyf, lyf með svipaða virkni eða undanþágulyf.“

Lyfjaskortur er vaxandi vandamál um allan heim, að sögn stofnunarinnar, og þar er Ísland ekki undanskilið. Lyfjastofnun segist hafa átt gott samstarf við markaðsleyfishafa, umboðsmenn þeirra, dreifingarfyrirtæki, lækna og almenning til að vinna að lausnum þegar lyfjaskortur komi upp. „Þegar lyf skortir getur það haft sína kosti að vera lítil þjóð því auðveldara getur reynst að útvega þau en þegar um stærri þjóðir er að ræða.“

Lyfjafyrirtækjum ber að tilkynna til Lyfjastofnunar sé fyrirsjáanlegt að lyf muni skorta. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Þannig má nefna að ástæðu þess að fimm milligramma Contalgin-töflur vantar í apótek landsins megi rekja til framleiðslutafa vegna Brexit.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -