Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Bólusetningarskylda gæti haft öfug áhrif

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sóttvarnarlæknir telur ekki ástæðu til að taka upp bólusetningarskyldu þrátt fyrir ný tilfelli mislinga hér á landi. Slíkar aðgerðir gætu jafnvel haft öfug áhrif. Hlutfall bólusettra er lægra en æskilegt þykir en fyrirbyggjandi aðgerðir ættu að duga til að koma málum í rétt horf.

Fjórir einstaklingar hafa greinst með mislinga á Íslandi nýlega, tveir fullorðnir og tvö börn. Öll voru þau óbólusett en börnin eru yngri en 18 mánaða sem er sá aldur sem er bólusett fyrir mislingum. Sá sem fyrstur greindist með mislinga smitaðist erlendis en hinir þrír smituðust í flugi Iceland Air Connect (áður Flugfélag Íslands) þann 15. febrúar. Mislingar eru afar smitandi eins og þessi tilfelli sýna og smitast þeir auðveldlega á milli einstaklinga í sama loftrými og við litla sem enga snertingu.

Bólusetningarhlutfall barna á Íslandi hefur almennt verið mjög gott sem sést á því hversu vel hefur gengið að halda smitsjúkdómum á borð við mislinga í skefjum. Þó hefur heldur gefið eftir undanfarin ár líkt og fram kom í riti Landlæknisembættisins í fyrra um þátttöku í almennum bólusetningum barna á Íslandi. Þar segir: „Þátttaka barna í bólusetningum við 18 mánaða og 4 ára aldur hér á landi er ekki ásættanleg og ef fram heldur sem horfir, þá geta blossað hér upp bólusetningasjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil.“

Í ritinu kemur einnig fram að hlutfall bólusettra barna hafi lengi verið við 98 prósent, en Landlæknir metur að hlutfallið þurfi að vera í kringum 95 prósent til að koma í veg fyrir hjarðónæmi. Um miðjan síðasta áratug fór hlutfallið ört lækkandi, fór niður fyrir 95 prósent milli áranna 2010 og 2011 og nálgast nú 90 prósent.

 Skylda gæti fælt fólk frá

Árið 2015 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fram tillögu um að leikskólar borgarinnar tækju ekki við óbólusettum börnum án læknisfræðilegra ástæðna. Sú tillaga var felld. Landlæknisembættið blandaði sér í þá umræðu og sagði að ekki væri þörf á slíkum ráðstöfunum. Bólusetningar væru almennt í góðu horfi og nær væri að að bæta innköllunarkerfi heilsugæslunnar og að fræða foreldra og heilbrigðistarfsmenn um mikilvægi bólusetninga til að halda uppi góðri þátttöku.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að afstaða embættisins sé óbreytt þrátt fyrir þau tilfelli sem nú hafa komið upp. „Við sjáum ekki smit hjá hópum sem hefðu átt að vera búnir að fara í bólusetningu. Það yrði alveg ný nálgun að skylda fólk í bólusetningu og gæti jafnvel haft þau áhrif að fleiri myndu setja sig upp á móti bólusetningum. Við miðum við að 95 prósent þurfi að vera bólusett til að koma í veg fyrir hjarðónæmi og það vantar ekki mikið upp á og því verður helst náð með því að fara í aðgerðir til að ná betri þátttöku, þá í gegnum inntökukerfið og með aukinni fræðslu.“

- Auglýsing -

 Fáir andstæðingar bóluefna á Íslandi

Mislingar eru afar sjaldgæfir á Íslandi en mislingafaraldur hefur geisað í Evrópu undanfarin ár og nú nýverið í Bandaríkjunum, eins og rakið er hér til hliðar. Í Bandaríkjunum hafa spjótin beinst gegn hreyfingum sem berjast gegn bólusetningum (e. anti-vaxxers) og þeim skaðlegu áhrifum sem fylgja boðskap þeirra og var málið meðal annars tekið fyrir á Bandaríkjaþingi í vikunni. Þar kom meðal annars fram að styrkur þessara hreyfinga er hvað mestur í norðvesturhluta Bandaríkjanna, einmitt þar sem neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna mislinga.

Þórólfur segir að lítið beri á hreyfingum sem þessum á Íslandi. Harðir andstæðingar bólusetninga á Íslandi séu fáir, kannski um 2 til 3 prósent. Hefur áður komið fram hjá Landlæknisembættinu að ástæður þess að börn eru ekki bólusett séu frekar af „tæknilegum toga“ en andstöðu foreldra við bólusetningar. Svo virðist sem mislingatilfellin í vikunni hafi hreyft við mörgum foreldrum því mikil ásókn hefur verið í bólusetningar síðustu daga og gengur hratt á birgðirnar í landinu. Búið er að panta meira bóluefni. Þess vegna er allt eins mögulegt að þessi tilfelli verði til þess að bólusetningarhlutfallið fari aftur hækkandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -