Velska söngdívan Bonnie Tyler stígur á sviðið Valhöll á tónlistarhátíðinni Secret Solstice annað kvöld klukkan 22.30, en það er óhætt að segja að margir Íslendingar hafi beðið með eftirvæntingu eftir að sjá dívuna þenja raddböndin.
Sjá einnig: Söngdívan Bonnie Tyler syngur fyrir Íslendinga í sumar.
Bonnie á aragrúa af þekktum lögum og er hvað þekktust fyrir stórar og miklar kraftballöður. Hún á þó líka sínar mjúku hliðar, en ef listar yfir lög sem hún hefur tekið á tónleikaferðalagi á þessu ári eru skoðaðir er mjög líklegt að við fáum að heyra þessi lög:
Have You Ever Seen the Rain?
Bonnie byrjar rólega með ábreiðu af þessu þekkta lagi sem Creedence Clearwater Revival gerði frægt.
It’s a Heartache
Annað rólegt lag, sem margir kannast við, sem Bonnie tekur yfirleitt í fyrri hluta tónleika sinna.
Total Eclipse of the Heart
Ekki búast við því að Bonnie byrji á þessum þrumusmelli en líklegt er að þetta epíska lag komi um miðbik tónleikanna til að keyra stemninguna upp.
Faster Than the Speed of Night
Það eru fá lög sem geta komið á eftir Total Eclipse of the Heart en þetta er eitt af þeim.
River Deep, Mountain High
Ábreiða Ike og Tinu Turner-smellsins passar vel rétt áður en Bonnie vindur sér í eitt af sínum þekktustu lögum.
Holding Out for a Hero
Þetta truflaða lag úr kvikmyndinni Footloose er auðvitað síðast á dagskrá. Geggjaður slagari sem á eftir að senda alla í sæluvímu út í nóttina.