Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Borgarbyggð verði barnvænt sveitarfélag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikil eftirvænting ríkti í Borgarbyggð í gær þegar Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Magnús Smári Snorrason formaður fræðsluráðs Borgarbyggðar, undirrituðu samstarfssamning um verkefnið Barnvæn sveitarfélög. En með undirskriftinni bætist Borgarbyggð í ört stækkandi hóp sveitarfélaga sem hefja innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi. Kemur þetta fram í tilkynningu frá UNICEF.

„Það er ómetanlegt að upplifa hversu mikill áhugi er meðal sveitarfélaga á Íslandi á að ganga til samstarfs við okkur og innleiða þetta mikilvæga verkefni. Eftirspurn eftir stuðningi við innleiðingu Barnasáttmálans hefur verið mikil og vil ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að svara þeirri eftirspurn. Barnasáttmálinn er áttavitinn sem allt starf með og fyrir börn á að byggja á,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. „Það er afar gleðilegt að sjá Borgarbyggð setja málefni barna og fjölskyldna í svo skýran forgang.“

„Það gaman að segja frá því að það voru nemendur og starfsmenn Kleppjárnsreykjadeildar Grunnskóla Borgarfjarðar sem lögðu fram erindi til sveitarstjórnar fyrr á árinu, þar sem skorað var á Borgarbyggð að hefja formlegt innleiðingarferli á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Tók sveitarstjórn vel í erindið og byggir þátttaka Borgarbyggðar í verkefninu þannig á frumkvæði barna sem hér búa,“ segir Magnús Smári Snorrason, formaður fræðsluráðs Borgarbyggðar, að þessu tilefni.

Þátttaka Borgarbyggðar í Barnvænum sveitarfélögum er liður í að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga. „Með undirrituninni í dag skuldbinda fulltrúar Borgarbyggðar sig til þess að setja upp „barnaréttindagleraugun“ og vinna að því að forsendur Barnasáttmálans gangi sem rauður þráður í gegnum alla þjónustu sveitarfélagsins. Við hjá UNICEF á Íslandi erum ákaflega stolt af því að Borgarbyggð bætist í hóp metnaðarfullra sveitarfélaga um allt land sem vinna með okkur að þessu verðuga verkefni,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Öll sveitarfélög verði Barnvæn sveitarfélög

Akureyri hóf vinnu við að verða Barnvænt sveitarfélag árið 2016, fyrst sveitarfélaga á Íslandi. Í kjölfarið fylgdu Kópavogur (2018) og Hafnarfjörður (2019).  Áhugi á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill og biðlistar myndast, þar sem UNICEF hefur hingað til ekki getað annað eftirspurn áhugasamra sveitarfélaga. Þann 18. nóvember 2019, í tilefni að 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gengu félags- og barnamálaráðherra og UNICEF á Íslandi til samstarfs við framkvæmd verkefnisins undir formerkjum Barnvæns Íslands. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að 18 ný sveitarfélög bætist í hópinn. Félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi sendu öllum sveitarfélögum landsins fyrir stuttu formlegt erindi með boði um þátttöku og hafa viðtökur verið vonum framar.

- Auglýsing -

Þau sveitarfélög sem taka þátt munu fá aðgang að mælaborði um velferð barna, en það hefur að geyma safn mælinga úr rannsóknum á velferð og stöðu barna og ungmenna innan sveitarfélagsins, mælingarnar eru 80 talsins. Mælaborðið var þróað af Kópavogsbæ í samstarfi við Félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi,  en það hlaut nýlega alþjóðlega viðurkenningu UNICEF (Child Friendly Cities Initiative Inspire Awards) fyrir framúrskarandi lausn og nýsköpun í nærumhverfi barna. Verðlaunin voru veitt á ráðstefnu í Köln sem haldin var haustið 2019. Á næsta ári er stefnt að því að öll sveitarfélög  geti nýtt sér mælaborðið.

Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna

Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.

- Auglýsing -

Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans. Sveitarfélög sem hafa áhuga á að hefja markvisst ferli við innleiðingu sáttmálans geta einnig skráð sig til þátttöku á vefsíðunni.

Auglýst eftir umsóknum áhugasamra sveitarfélaga

Opnað hefur verið fyrir umsóknir og eru áhugasöm sveitarfélög um allt land hvött til að kynna sér verkefnið og skrá sig til leiks. Verkefnisstjóri Barnvæns Íslands, Hjördís Eva Þórðardóttir ([email protected]) veitir gjarnan allar nauðsynlegar upplýsingar um verkefnið en einnig bendum við á heimasíðu verkefnisins (www.barnvaensveitarfelog.is).

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -