Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara. Sakarefni ákærunnar, sem er dagsett 28. júní, er peningaþvætti.
Júlíus Vífil var einn þeirra stjórnmálamanna sem voru opinberaðir í Panamaskjölunum og greint var frá í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í ársbyrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félagsins að nafn Júlíusar Vífils kæmi hvergi fram í tengslum við félagið, samkvæmt umfjölluninni.
Tveimur dögum áður en að Kastljósþátturinn var sýndur sendi Júlíus Vífill frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins væri að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. „Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”
Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi 5. apríl 2016, tveimur dögum eftir að þátturinn var sýndur.
Þann 5. janúar 2017 kærði skattrannsóknarstjóri Júlíus Vífil til embætti héraðssaksóknara vegna meintra brota á skattalögum og vegna gruns um peningaþvætti. Við síðara brotinu getur legið allt að sex ára fangelsisdómur. Í kærunni kom fram að Júlíus Vífill hafi átt fjármuni á erlendum bankareikningum að minnsta kosti frá árinu 2005.
Ítarlega er fjallað um málið í Mannlífi dagsins og á vef Kjarnans.