Borgarleikhúið býður öllum 10. bekkingum í Reykjavík á sýninguna Allt sem er frábært.
„Mikið líf og fjör hefur verið hjá okkur á sérstökum sýningum á Allt sem er frábært fyrir 10. bekkinga í Reykjavík,“ segir á heimasíðu leikhússins. Um 1500 nemendur koma til með að mæta á sýningarnar en fjórar sýningar voru í seinustu viku og tvær til viðbótar í lok nóvember.
Allt sem er frábært er einleikur með Vali Frey Einarssyni í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar, en sýningin var frumsýnd í september 2018. Var henni vel tekið bæði af áhorfendum og gagnrýnendum.
„Við erum stolt af þessari sýningu og teljum hana mjög við hæfi fyrir ungt fólk á þessum aldri sem oft á tíðum glímir jafnvel við depurð, sorg og aðra erfiðleika í lífinu. Við vonumst til að sýningin hafi þau áhrif að kennarar og aðrir aðstandendur sjái þörf á að vinna með efnið áfram.“
Listi yfir allt sem er frábært, númer 1. Ís með dýfu.