Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, biðlaði á blaðamannafundi í dag til Englendinga að hegða sér almennilega þegar barir og pöbbar á Englandi opna aftur eftir rúmlega þriggja mánaða lokun í fyrramálið. Sagði forsætisráðherrann að hann myndi ekki hika við að beita staðbundnu útgöngubanni ef smitum fjölgaði á ákveðnum stöðum í kjölfar opnunarinnar.
Johnson minnti fólk á að hættan af kórónaveirufaraldrinum væri ekki yfirstaðin og það væri undir hegðun þess komið hvort hægt yrði að tilkynna um opnanir í fleiri geirum atvinnulífsins í næstu viku eða hvort aftur þyrfti að herða reglurnar.
Leyfið til að opna pöbba og bari á ný hefur vakið blendin viðbrögð á Englandi, sérstaklega að gera það á laugardegi sem hefur af gagnrýnendum verið kallað heimska. Rekstraraðilar pöbbanna virðast heldur ekki allir jafn hrifnir af breytingunni á reglunum og í könnun sem gerð var meðal 15.000 kráareiganda á Englandi kom í ljós að aðeins fjörutíu og tvö prósent þeirra hyggjast opna á morgun. Lögreglan hefur sömuleiðis sínar efasemdir um ágæti ákvörðunar Johnson og tilkynnt hefur verið að lögreglumönnum á vakt verði víðast hvar fjölgað til að stemma stigu við ólátum. Starfsfólk slysavarðstofa og bráðamóttaka hefur jafnframt verið varað við og því sagt að vera viðbúið „gamlárskvöldsástandi“ á laugardagskvöldið. Það er því mikil spenna í loftinu og ljóst að fólk er við öllu búið á morgun.