„Það er alveg eðlilegt að hafa áhyggjur af börnunum sínum, sérstaklega á tímum sem þessu,“ segir Valtýr Stefán Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Barnaspítala Hringsins, á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um útbreiðslu COVID-19. Valtýr segir foreldra almennt hafa staðið sig vel og fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda i tengslum við kórónaveiruna.
Hann biður fólk um að halda ró sinni og segir mikilvægt að ræða við börnin um veiruna þannig að þau átti sig á því sem er um að vera. Hann biður fólk um að minna börn á að vera ekki hrædd. „Það sem er merkilegt við þessa veirusýkingu er að börn virðast veikjast síður en fullorðnir. Börn fá minni og vægari einkenni, ólíkt öðrum hefðbundnum veirusýkingum,“ segir Valtýr.
Hann segir öll þau börn hér á landi sem hafa smitast vera einkennalítil eða einkennalaus. „Öll börnin sem hafa smitast voru á ferðalagi erlendis. Engin börn hafa smitast innanlands.“
Hann segir engin börn hafa þurft að leggjast inn á spítala vegna þessarar sýkingar. „Við erum undirbúin ef þyrfti að leggja börn inn á barnaspítalann og takast á við þær aðstæður.“