Svissnesk heilbrigðisyfirvöld hafa skipt um skoðun varðandi samskipti ungra barna við afa sinn og ömmu og segja nú að börn undir tíu ára aldri séu ekki smitberar og megi því gjarnan faðma eldra fólk.
Haft er eftir yfirmanni sóttvarna í svissneska heilbrigðisráðuneytinu, Daniel Koch, í frétt BBC um málið, að vísindamenn hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að fyrra bann við samskiptum barna og eldra fólks hafi ekki verið byggt á vísindalegum niðurstöðum, börn undir tíu ára aldri hafi ekki þá móttakara sem þurfi til að sýkjast og geti því ekki smitað aðra. Samskipti þeirra við afa og ömmu eigi þó að standa stutt yfir og barnapössun eldra fólks á barnabörnunum sé ekki inni í myndinni.
Ekki eru þó allir sammála þessum niðurstöðum svissnesku vísindamannanna og sóttvarna- og veirufræðingar annrra landa hafa varað við því að treysta því að börn beri ekki smit þar sem niðurstöðum ólíkra rannsókna beri ekki saman og ekki sé hægt að fullyrða slíkt með neinni vissu.
Sviss er nú að aflétta útgöngubanni, smátt og smátt eins og mörg önnur Evrópuríki, og í þessari viku mun hárgreiðslustofum og fleiri þjónustuaðilum verða heimilt að opna á ný, en skólar og verslanir sem selja annað en nauðsynjavöru mega opna eftir tvær vikur.