Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Börnum á landsbyggðinni hafnað á grunni búsetu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Börn á landsbyggðinni með fjölþættan vanda, eins og þroska- og geðraskanir, einhverfurófseinkenni eða ADHD, þurfa í mörgum tilfellum að reiða sig á þjónustu hjá einkastofum með tilheyrandi kostnaði. Ástæðan er einföld: Opinbera heilbrigðiskerfið hefur ekki fjármagn eða mannafla til að veita börnum á landsbyggðinni sömu þjónustu og börnum sem búa nær þjónustukjörnunum.

Ingunn Bylgja Einarsdóttir, búsett á Egilsstöðum, hefur lengi barist við kerfið til þess að fá viðeigandi úrræði fyrir tvö börn sín. Hún skrifaði nýlega pistil og birti á Facebook þar sem hún gagnrýnir opinbera kerfið harðlega og lýsir þrautagöngu sinni við að koma barninu í greiningarferli hjá BUG á Akureyri. Henni var ítrekað synjað í 6-7 ár.

Konan leitaði að lokum til sálfræði- og læknisþjónustunnar Sólar í Reykjavík þar sem hún borgaði háar fjárhæðir fyrir. Þar hafi hún fengið skjóta og góða þjónustu og viðeigandi greiningar en tekur fram að ekki allir foreldrar séu í þeirri aðstöðu að geta greitt fyrir slíka þjónustu.

„Ég hringdi í yfirsálfræðing BUG í dag og þakkaði henni fyrir ítrekaða höfnun í sex eða sjö ár.“

„Ég hringdi í yfirsálfræðing BUG í dag og þakkaði henni fyrir ítrekaða höfnun í sex eða sjö ár. Sagði henni frá greiningum frá SÓL og spurði hana hvað henni fyndist um að loksins hefðum við fengið hjálp, loksins löngu seinna gætu drengirnir okkar notið lífsins, staðið sig vel í skóla og í raun væri lífi þeirra mögulega loksins borgið og þeir gætu náð góðum árangri félagslega og námslega,“ skrifar Ingunn.

Hún segir jafnframt frá því að skýringarnar sem hún hafi fengið hefðu verið á þá leið að börnum á Austurlandi sé frekar hafnað um þjónustu en börnum í nágrenni Akureyrar vegna þess að ekki sé til fjármagn til að senda sérfræðinga austur til að fylgjast með börnum í leik og starfi, en slíkt sé forsenda fyrir nákvæmu greiningarferli.

Ingunn leggur þó áherslu á að félagsþjónustan á staðnum og starfsfólk skólans sem börnin sækja hafi staðið sig óaðfinnanlega þrátt fyrir að fá ekki aukafjármagn til að takast á við vandann og hafi lagt á sig ómælanlega vinnu.

Enginn barnageðlæknir á Austurlandi

- Auglýsing -

Ruth Magnúsdóttir, skólastjóri Egilsstaðaskóla, segir í samtali við Mannlíf að þörf sé á betri úrræðum í heilbrigðiskerfinu fyrir börn á landsbyggðinni með fjölþættan vanda. „Við erum með skólaþjónustu þar sem börn fara í frumgreiningu ef við teljum að um sé að ræða einhverjar raskanir og í kjölfarið er foreldrum bent á að fara með málið áfram þó að það sé alls ekki einfalt,“ segir hún og leggur áherslu á að sárlega vanti barnageðlækni sem þjónusti Austurland.

„Hjá okkur er um 12 mánaða bið eftir frumgreiningu, þar sem barn fær m.a. þroskamat. Ef talið er að um einhverfurófsröskun sé að ræða er barninu vísað á Greiningarstöð og þá tekur aftur við 12-14 mánaða bið. Þannig að við erum að tala um allt að tveggja ára bið eftir að óskað hefur verið eftir þjónustunni,“ útskýrir hún.

Ef grunur er um ADHD er foreldrum bent á að fá tíma hjá barnageðlækni. „Það sárvantar betra aðgengi að þeirri þjónustu hér.“

- Auglýsing -

Mannlíf hefur haft af því spurnir að þegar barnageðlæknir lét af störfum á Sjúkrahúsinu á Akureyri hafi orðið miklar raskanir á þjónustu.

Ruth tekur fram að dæmi séu um að börn hafi farið á BUGL eða BUG á Akureyri og verið undir handleiðslu geðlæknis þar. „Þá höfum við yfirleitt fengið samstarf og eftirfylgni, sem hefur hjálpað og sem þarf að vera.“

Sálfræðingur sem Mannlíf ræddi við og starfar á Norðausturlandi tekur undir að oft sé mjög erfitt að koma börnum á landbyggðinni að í sérúrræði. Sama gildi um fullorðna einstaklinga sem þurfi mikla aðstoð og tók dæmi um skjólstæðing sem hann mat þannig að þyrfti mun meiri aðstoð en hann gat sjálfur veitt skjólstæðingnum. Hann reyndi að vísa honum inn í teymi á geðdeildinni á Akureyri en fékk höfnun. Vandinn þótti ekki nægilega mikill. Eins nefnir hann að það geti verið heilmikið „vesen“ fyrir fólk að ná í endurgreiðslur vegna aksturs og ferða. „Þeir eru ekki með nein útibú á landsbyggðinni, við þurfum alltaf að fara til þeirra,“ segir hann.

BUG-teymið á Akureyri tók á móti fyrirspurn frá Mannlífi um málið en svar hafði ekki borist áður en blaðið fór í prentun.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -