Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Bragi fór á kosningaskrifstofu Davíðs Oddssonar: „Þarna sá ég nýja hlið á þessum seníla brjálæðing“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bragi Páll Sigurðarsson sjómaður, rithöfundur, ljóðskáld, pistlahöfundur, já bara almennur penni, gaf nýverið út sína aðra skáldsögu. Skáldsagan, sem ber hið skemmtilega nafn Arnaldur Indriðason deyr, hefur verið að skríða upp metsölulistana. Mannlíf ákvað að bjalla á rithöfundinn frumlega og heyra í honum hljóðið. 

Það þekkja flestir þennan rauðhærða og sniðuga mann með Sideshow Bob greiðsluna en hver er hann, í raun?

Það er hægt að svara þessari spurningu á nokkra vegu. Það fyrsta sem kemur til mín er að svara henni á þann hátt sem búddistar líta á manneskjuna; Að ég er alheimurinn að upplifa sig í formi spendýrs sem kallað er Bragi Páll. Eitt andlit á mörgum og allt það, en þetta er líklega ekki aðgengilega, auðmeltanlega svarið. Á yfirborðinu, akkúrat þessa dagana, er Bragi Páll fyrst og fremst faðir og kærasti, og faglega séð rithöfundur, sjómaður og pistlahöfundur. Fyrst og fremst lít ég bara á mig sem manneskju sem er að reyna að valda sem minnstum skaða í mínu nánasta umhverfi, reyna að skila börnunum mínum af mér sem betra fólki en ég er sjálfur. Ég hef eytt talsverðum tíma og orku í að taka púslið sem sjálfið mitt er í sundur, og taka minna mark á því sem brotin sem eftir sitja hafa að segja, og finnst þessvegna pínu erfitt að svara þessari spurningu heiðarlega, en þetta var í það minnsta tilraun til þess.

Það var og. En allt og allir eiga sér upphaf. Og upphaf Braga Páls var á Stykkishólmi. Hvernig var að alast þar upp?

Það að vera barn í Stykkishólmi í áttunni var dásamlegt. Friðsælt og fallegt. Vinir mínir áttu allir heima í næstu húsum, Jón Magnús, Elín Ragna og Kiddó. Ég flyt að vísu ungur, rétt fyrir fimm ára aldurinn, úr bænum, þegar foreldrar mínir skilja. En ég var duglegur að fara vestur, pabbi býr þarna enn, og heimsótti ég hann, sérstaklega á sumrin, og hélt því alltaf tengingu við bæinn og jafnaldra mína.

Í endurminningunni er æskan í hólminum uppfull af áhyggjulausu flakki um rólegar götur þar sem allt gat orðið að ævintýri fyrirvaralaust. Þannig voru sumrin sem unglingur þarna líka, bara búið að bæta við skellinöðrum, bjór og Camel. Mér þykir alveg ofboðslega vænt um Stykkishólm. Þó ég hafi alist upp frá 5 ára og upp úr tvítugu í Mosó þá upplifi ég mig alltaf sem Hólmara fyrst, svo Mosfelling. Þar af leiðir að ég er bara gestur í Reykjavík og má þessvegna vera duglegur á flautunni í umferðinni og hafa skoðanir sem aðrir kannski þora ekki. Glöggt er gests augað og allur sá djass.

Bragi er sem betur fer ekkert líkur Sideshow Bob að innan.
Mynd: Ari Eldjárn

Eins og áður segir hefur allt upphaf og það sama hlýtur að eiga við um skrifin og áhugann á ljóðum. Hvenær kviknaði sá áhugi?

- Auglýsing -

„Ég man það ekki alveg sjálfur, en ég var ungur farinn að læra vísur og semja svo sjálfur afbakaðar útgáfur af þeim. Fyrsta vísan sem hefur varðveist eftir mig er frá því ég var þriggja ára. Eftir að foreldrar mínir skilja er ég mikið í pössun hjá langömmu minni, Dagbjörtu Níelsdóttur frá Sellátri á Breiðafirði. Langamma sagði alltaf um mig að ég yrði skáld, sem er mjög steikt að alast upp við. Líklega sagði hún þetta því ég var og er mjög lyginn, en það hjálpar gríðarlega í rithöfundastarfinu. Getur verið til trafala þegar ég hef sett upp blaðamannahattinn. Þessvegna kannski eiga pistlaskrif best við mig, því þar er sannleikurinn mun mótanlegri. 

Ég var svo alltaf skrifandi. Í fyrsta bekk stundaði ég það að stelast í fjörgamla Macintosh tölvu móður minnar, þar samdi ég framhaldssögu, byggða á Lárusi vini mínum, um strák sem öðlaðist ofurkrafta við það að borða lakkrís, sem er einmitt uppáhalds nammið mitt. Sambó reimar tróna.

Söguna um Lalla lakkrís prentaði ég svo út og lét kennarann minn, Ingólf Kristjánsson, lesa söguna upp fyrir bekkinn. Þarna var strax eitthvað farið að gerast. Ég var svo að semja sögur og ljóð, og alltaf mjög duglegur að ljúga. Þegar ég fer í gaggó lendi ég á frábærum íslenskukennara, Björk Einisdóttir. Hún hafði það fyrir hefð að alltaf á föstudögum voru skapandi skrif tímar. Þá máttu nemendur koma með sögur eða ljóð og lesa fyrir bekkinn og fá endurgjöf frá Björk, þetta var líka algjörlega frábært, og í raun talsvert framsækið fyrir þennan tíma. Í Menntó voru það svo drykkju og dónavísur ásamt því sem Morfís var frábær farvegur fyrir skriftir, þó það hafi farið illa með geðheilsuna. Eftir að hafa loksins klárað Fjölbraut í Breiðholti skráði ég mig í Ritlist í Háskólanum, og á ég henni, Rúnari Helga og Sigurði Pálsyni svo ótrúlega mikið að þakka. Í Ritlist gafst tækifæri til þess að skrifa og skrifa, fá stöðugan lestur frá reyndum rithöfundum og samnemendum. Þar fór að kvikna sú hugmynd að kannski gæti ég einhvern daginn starfað sem rithöfundur.“

- Auglýsing -

En hvernig er það með Braga Pál, er hann kominn með vísitölufjölskyldu? 

„Ég er í sambúð með rithöfundinum og alheimsmeistaranum Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Það er mjög hollt fyrir mig og mitt egó að vera ekki einusinni besti rithöfundurinn í fjölskyldunni. Við kynntumst einmitt í ritlisti, þar sem ég var mikill aðdáandi hennar. Hún flutti svo til Berlínar eftir nám, en kom til Íslands í einhverja heimsókn að tveim árum liðnum. Ég greip þá gæsina, bauðst til þess að skutla henni á Selfoss, þar sem tengdamamma bjó á þessum tíma, og stalst í sleik. Nú eigum við tvö börn, Úrsúlu sem er sex ára og Eggert sem er tveggja, búum í gamla Vesturbænum, með rafmagnsbíl og Kristjaníuhjól og annað hvert barn sem er með Úu í bekk á foreldri sem er rithöfundur. Það er álíka merkilegt að eiga mömmu eða pabba sem skrifar bækur í Vesturbæjarskóla eins og það var að eiga pabba sem var sjómaður í Stykkishólmi árið 1988.“

Bragi Páll stundar nú sjóinn af kappi en hafði um nokkurt skeið áður unnið sem blaðamaður. Hvað er það minnistæðasta úr þeirri vinnu? Þegar Bragi Páll svaraði þessari spurningu er ekki laust að blaðamaðurinn hafi pínulítið misst móðinn við lesturinn. 

Það allra minnisstæðasta eru kannski þessar stóru opinberanir sem breyttu engu. Þegar Panamaskjölin skoluðust inn til okkar, þar sem var afhjúpað að íslensk elíta keppist við að fela auð sinn fyrir samneyslunni og öllum var skítsama. Svo þegar uppreisn-æru málin komu upp, og Björt Framtíð og Viðreisn höfðu hugrekkið til þess að slíta þeirri ríkisstjórn, og var verðlaunað með löðrung og því að Sjálfstæðisflokkurinn var einfaldlega kosinn aftur í ríkisstjórn. Þarna missti ég soldið áhugan á því að starfa sem blaðamaður, og var hann þó lítill fyrir. Þegar þú horfir upp á risavaxnar afhjúpanir skolast yfir landið, hver á eftir annarri, án þess að kjósendur hafi þær í huga í kjörklefanum, þá fer maður að spyrja sig til hvers allt streðið sé. 

Annað minnisstætt eru svo þessir upplifunarpistlar sem ég haft soldið gaman af. Þegar ég fór á íbúafund á Kjalarnesi þar sem nokkrir rasistar voru alveg að pissa á sig yfir því að brúnt fólk sem talaði ekki íslensku dirfðist til þess að fara í sundlaugina þeirra og taka strætóinn þeirra. Það var fyrsti upplifunarpistillinn. Minn uppáhalds er samt alltaf þegar ég fór á kosningaskrifstofu Davíðs Oddssonar, þegar hann var í framboði til forseta. Hann hafði misst móður sína þennan sama dag og flutti svo fumlausa en um leið fallega ræðu, þar sem honum tókst að flétta fullkomlega saman sorg og gleði. Þarna sá ég nýja hlið á þessum seníla brjálæðing, sem hefði náttúrulega alltaf átt að fara einfaldlega í leiklist. Þannig hefði hann geta hlíft landanum fyrir þessum viðbjóðslega Thatcher/Regan-isma sem öll jakkafatabörnin éta í morgunmat þessa dagana – og við sem þjóð hefðum fengið algjörlega frábæran leikara í staðinn. Allt fór þetta semsagt á versta veg. Eða nákvæmlega eins og það átti að fara, eftir því hvern þú spyrð.

Ekkert alvöru viðtal er án smá drama og spurningunni um helstu sigra og áskoranir í lífinu.

„Ég held að sigrar, áskoranir og áföll hangi mikið til á sömu spítunni. Mínir helstu sigrar eru líklega unnir á hverjum degi, frá því 20 júní árið 2012, þegar ég fór á sjúkrahúsið Vog og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þeirri leiðsögn og lækningu sem þar bauðst. Allt jákvætt í mínu lífi er bein eða óbein afleiðing af því að ég hætti að drekka og nota eiturlyf. Þessi sigur er svo bein afleiðing af mínu mesta áfalli, sem var skilnaður foreldra minna þegar ég var fjögurra ára. Á þeim árum voru engin skilnaðarnámskeið, eins og eru í boði í dag. Hlutirnir voru leystir með þögn og áfengi og Stiga sleðum. Þegar þessi frumeining manns, fjölskyldan, er brotin upp og leyst í sundur þá gerist eitthvað innra með manni. Kemur eitthvað högg á sjálfsmyndina sem er erfitt að laga. En allt fór þetta vel að lokum. Foreldrar mínir eru dásamlegt fólk sem ég lít á sem vini mína, engin staðið meira við bakið á mér eða sýnt mér eins skilyrðislausa ást. Þarna varð samt til einhver sársauki og þráhyggja sem hefur alltaf fylgt mér og ég reynt að lækna með fíflalátum, litríkum bindum og hugbreytandi efnum. Í dag reyni ég bara að halda hausnum á mér í þögn í nokkrar mínútur á dag, ef ég get. Fer með bænirnar mínar og geri tilraun til að elska alla þrátt fyrir allt.“

Áður en Bragi Páll hóf að skrifa frumlegar og frábærar skáldsögur gaf hann út ljóðabækurnar Fullkomin ljóðabók, ljóð eða eitthvað (Til hamingju!) 2012 og Hold árið 2013. Er hann alveg hættur að semja ljóð? Og svo varð blaðamaðurinn að spyrja spurninguna sem ljóðskáldið Lommi er alltaf að leita svara við, hver er staða ljóðsins?

„Nei, alls ekki. Vandinn við ljóð er samt hversu dýr þau eru í framleiðslu. Mig minnir að Eiríkur Örn hafi verið að tala um að með því að skrifa ljóð á blað þá fellur blaðið í virði. Það að skrifa og gefa út ljóðabók er því jafngilt því að búa til efnahagslegt svarthol sem sogar í sig hagvöxt. Ég á heilt handrit að ljóðabók sem til stendur að breyta í skáldsögu eða nóvellu, því ég vil ekki hafa það á samviskunni að gera fólk að fátæklingum. Ljóð voru fyrsta ástin mín í ritstörfum, þau eru miklu dularfyllri og dýpri og beittari en skáldsögur geta nokkurn tíma orðið. Ef ég gæti lifað á því þá myndi ég einungis skrifa ljóð, en nú er ég víst, í samstarfi við Bergþóru, búinn að búa til tvær manneskjur sem þurfa sífellt stærri kuldaskó og hreinar bleyjur og nýtt LOL dót, og þar sem ljóð eru fjárhagslegt svarthol þá bara get ég ekki leyft mér þann munað að skrifa eða gefa þau út. Þegar ég vil gera vel við mig þá les ég ljóðabók og Íslensk ljóðskáld, ung sem aldin, eru á algjörum heimsmælikvarða. Það væri gaman ef almenningur væri meðvitaður um þetta, og meðvitaður um að það þarf enga reynslu til þess að lesa ljóð. Þú bara lest þau og svo láta ljóðin þér vonandi líða einhvernveginn.

Staða ljóðsins er flókin, eins og ég hef verið að segja. Haugur af frábærum ljóðabókum sem koma út á hverju ári, en fólk virðist hvorki hafa tíma né hugrekkið til þess að lesa þær. Ég kenni ljóðstöfum um. Við eigum ekki að læra ljóð utanbókar. Við eigum að lesa þau eins og skyndibita. Hakka þau í okkur, gubba þeim út aftur. Koma að þeim síðar og éta sama borgarann aftur. Taka ljóð eftir aðra og skrumskæla. Leika okkur. Í grunnaskóla var mér kennt að nálgast ljóðið eins og það væri heilög ritning, það yrði að umgangast af virðingu og hátíðleik, sem er kjaftæði. Ekkert eins hættulegt fyrir ljóð eða ljóðskáld að einhver fari að koma fram við þau eins og þau séu brothætt. Það þarf að þjösnast á þessu. Fyrstu rokkstjörnur heimsins voru ljóðskáldin. Mestu pönkarar nítjándu aldar voru skáldin. Miklir brjálæðingar, drykkjuhrútar og dónar. En í dag sér fólk fyrir sér einhverja Shakespear týpu með fjaðurpenna sem talar í bundnu máli og að það þurfi gráðu í bókmenntafræði til þess einusinni að leyfa sér að lesa ljóð. Það er misskilningur. Ljóð eru bara eins og hver önnur neysluvara, þau bara eru þarna. Fáðu þér. Það þarf ekki að vera lærður kokkur til þess að finnast sushi gott. Sama gildir um ljóðin. Þannig að, svo ég svari honum Lomma mínum, í gegnum þig: Staða ljóðsins er fín, það eru að koma út frábær ljóð á Íslandi og um heim allan á hverju einasta ári, en það væri gaman ef fleiri treystu sér til þess að lesa þau.“

Þá veistu það Lommi. En hvaða bók var Bragi Páll að gefa út nú rétt fyrir jól?

„Nýja bókin mín, Arnaldur Indriðason deyr, er víst að fá á sig krimmastimpil, sem ég hafði bara ekki hugsað neitt út í þegar ég skrifaði hana. Hugmyndin kom til mín þegar ég var að gefa út fyrstu skáldsöguna mína, Austur, fyrir tveim árum. Þá var Arnaldur einusinni sem oftar að gefa út sinn árlega krimma og seldi hana í bílförmum, en bók sem ég hafði unnið að í þrjú ár og langað til að gefa út enn lengur hvarf í flóðinu. Þarna um miðjan desember, þegar ljóst var í hvað stefndi, fór ég að grínast við vini mína að næsta bók yrði þannig að í upphafi hennar finndist Arnaldur Indriðason myrtur í kjallara í Norðurmýri. Þessi brandari vatt svo talsvert upp á sig. Ég var svo að bera undir föður minn nokkrar hugmyndir að skáldsögum sem ég var að velta fyrir mér að nota ritlaunatímann í að skrifa. Hann sagði að þetta væri langmest spennandi pælingin, og þarmeð var það ákveðið. Þannig í það minnsta hófst þetta. Ég var svo að berja saman fyrstu kaflana á meðan ég sat tíma í Stýrimannaskólanum, þar sem ég var að bæta við mig réttindum. Þegar ég fór svo að taka út ritlaunin mín vann ég alfarið að henni, mest á kvöldin. Þá heimsótti Uggi Óðinsson, aðalpersónan, mig. Klóraði sig inn í heilann og sagði mér allskonar viðbjóðslega hluti. Í rauninni skrifaði hann bókina bara fyrir mig, enda er hann líka rithöfundur. Ég var bara fílter fyrir hann til þess að vinna sín helstu verk. Það mætti jafnvel segja að ég ætti alls ekki að vera skrifaður fyrir þessari bók, heldur hann, en ég er honum jafnframt mjög þakklátur fyrir að leyfa mér að vera memm.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -