Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Bragi hefur bjargað þremur mannslífum: „Það er alltaf góð tilfinning“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þú fórst í frægan steinbítsróður.

„Hann var athyglisverður,“ segi Bragi Ólafsson í viðtali við Reyni Traustason.

Það er mesta aflaverðmæti sem línubátur hefur dregið á einum sólarhring.

„Og sérstaklega á steinbít. Við vorum að leggja af stað í róður aðfaranótt mánudags,“ segir Bragi en þeir voru þrír frá Suðureyri. „Það var 250 tonna bátur frá Hornafirði sem var á loðnu út frá Vestfjörðum og bilaði út frá Kóp sennilega. Var á reki.“ Það var kallað í nokkra frá þeim báti en ekkert gert og loks var kallað í Braga. „Mér fannst dálítið leiðinlegt að láta manninn vera þarna á reki,“ segir Bragi sem sagði við manninn að hann skyldi gera þetta ef hann fengi tryggingarnar til að samþykkja að hann fengi samanlagt aflaverðmæti tveggja báta á svæðinu. Og það var samþykkt. „Ég dró hann í land og var það tímanlega að ég gat laumast og lagt línuna út á Kóp og var með átta tonn. Hinir voru með 24 tonn. Og leggið svo saman.“

Þeir héldu kannski að þeir fengju bara beitningahlut úr átta tonnum en þeir fengu aflatonn úr 54.

Beitningamennirnir í landi voru ekkert kátir þegar þú komst.

„Nei, þeir voru óhressir þangað til ég sagði þeim að þessu yrði skipt eins og venjulegum aflahlut. Það voru engir björgunarlaun. Þeir héldu kannski að þeir fengju bara beitningahlut úr átta tonnum en þeir fengu aflatonn úr 54.“

- Auglýsing -

Það var veisla þann mánuðinn.

„Þeir urðu mjög ánægðir.

Þetta er svolítið skrýtin aflasaga.“

- Auglýsing -

Bragi Ólafsson

14 ára á sjóinn

Bragi er frá Suðureyri og var á sjó í 44 ár. Frá 14 til 58 ára. Hann segir að það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að fara á sjóinn. „Mér datt ekki í hug að fara að vinna í frystihúsi. Ég gerði það samt þegar ég var 11 ára og 13 ára. 14 ára fór ég á sjó og fór aldrei í land eftir það þangað til ég hætti. Þá var ég á trillum á sumrin og í skólanum á veturna. Á skaki og línu. Manni var kennt að vinna þarna. Það var ekkert gefið eftir.

Ég var alinn upp mikið hjá pabba sem var með stóru bátana. Freyjurnar. Ólaf Friðbertsson. Svo fór hann að kaupa trillur þegar við vorum að byrja að vaxa úr grasi til að hann hefði atvinnu fyrir strákana. Þannig byrjaði þetta.“

Áhuga og láta ekki trufla þig. Þá gengur þetta.

Árin liðu og fór Bragi svo í Stýrimannaskólann. Faðir hans lést árið 1972 og varð Bragi skipstjóri á einum bátanna.

„Það gekk rosalega vel á síldinni fyrstu þrjú árin sem hún var og það bjargaði okkur að hann var mjög skuldlítill báturinn þegar síldarleysisárin komu og þessi erfiðu ár, 1967-1969. Eftir það gekk þetta allt ágætlega.“

Jú, tíminn leið og Bragi fór suður. „Mér bauðst til að taka við togaranum Júlí sem var 1000 tonna togari í Hafnarfirði.“

Það er alvöru.

„Það er alvöru og þá byrjaði mín alvörutogaramennska.“

Bragi er spurður hvað menn þurfi að hafa sem sækja sjóinn. „Áhuga og láta ekki trufla þig. Þá gengur þetta.“

Bragi Ólafsson

Sjúkrakassi í björgunargjöf

Bragi hefur bjargaði fólki frá drukknun. Oftar en einu sinni.

„Ég hef bjargað tveimur strákum úr höfninni á Suðureyri og einum til viðbótar úr sundlaug á Mallorca. Það er alltaf góð tilfinning af því að ég veit að í tveimur tilfellum hefði þetta ekki endað vel ef ég hefði ekki verið á staðnum.

Í fyrsta skiptið var verið að byggja höfnina á Suðureyri og voru gröfur að grafa langt niður í sjóinn. Fimm til sjö ára krakkar voru að leika sér og athuga hvað þeir gætu hlaupið nálægt kantinum. Ég var með trilluna að botnþrífa og var einn þarna og fylgdist með krökkunum. Það endaði með því eins og við var að búast – einn fór niður. Og krakkarnir hlupu allir í burtu. Hann var kominn þrjá til fjóra metra og ég náði honum upp,“ segir Bragi en báturinn var um 10 metra frá. „Ég stakk mér á eftir honum og náði honum upp. Þetta var sonur læknisins og ég fékk veglegan sjúkrakassa í björgunargjöf. Hann var alltaf um borð í trillunum.“

Menn voru frammi á stefni og svo voru menn í landi en menn gláptu bara.

Bragi segir frá öðru björgunarafreki. „Við vorum að koma úr róðri og leggja að bryggju og beitningamennirnir voru komnir með balana og ég var kominn með stefnið þannig að það var á ská. Þá kom ungur drengur á hjóli, fór út í kantinn, missti jafnvægið og datt í sjóinn milli skips og bryggju. Menn voru frammi á stefni og svo voru menn í landi en menn gláptu bara. Ég sparkaði af mér skónum, kúplaði frá, stakk mér niður og náði í stráksa.“

Hann segir svo frá þriðju björguninni.

„Þá var ég úti í sólarlöndum og sat um morgun á sundlaugarkanti og fólk í kring á bekkjum. Þá tók ég eftir manni sem kom labbandi og stakk sér út í. Mér fannst vera merkilegt hvernig hann stakk sér. Hann fór einhvern veginn á bringuna og sökk svo niður og lét öllum illum látum. Ég skildi ekkert hvers lags æfingar þetta væru á manninum. Hann var lengi niðri. Svo kom hann upp á yfirborðið í augnablik. Ég heyrði eitthvað hljóð og svo sökk hann aftur. Þá sá ég að það þýddi ekkert annað en að ná í kallinn.“

Og það gerði Bragi.

Hann var bara ósyndur.

Hann segir að hann hafi síðan fengið hjálp við að koma manninum upp á sundlaugarkantinn. „En það hafði enginn tekið eftir þessu. Hann hefði getað verið þarna áfram.“

Hvað kom fyrir?

„Hann var bara ósyndur. Við vorum að dæla upp úr honum og han var farinn að geta staðið upp. Svo kom konan hans og talað um hvern fjandann hann hefði verið að gera þarna ósyndur og tók hann í burtu. Ég var alltaf að vonast eftir að ég fengi bjór í verðlaun en ég sá hann aldrei meir.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -