„Þetta eru náttúrlega gríðarlegir hagsmunir sem eru þarna undir. Það er svakalegur katalógur af íslenskum lögum bara frá upphafi,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður og formaður STEF.
Kaup Universal Music, stærsta tónlistarfyrirtækis heims, á íslenska útgáfufyrirtækinu Alda Music er stórmál í útgáfusögunni, segir Bragi og segir jafnfremur að sé ljóst að kaupin muni hafa mikil áhrif á íslenska tónlistarbransann.
Að sögn Braga Valdimars eru ekki öll kurl komin til grafar enn hvað varðar áhrifin sem salan á Öldu Music mun hafa á tónlistarbransann í hinu stóra samhengi. Þó er ljóst að um stórfrétt sé að ræða.
„Þetta er stórmál bara í útgáfusögunni, myndi ég segja. Af því þetta er svo mikið magn sem hefur safnast upp á einn stað og auðvitað er alltaf hægt að gera athugasemd við það, er það réttlætanlegt?“
Bragi bætir því við að bæði bransinn og hann sjálfur eigi eftir að melta málið.
„Ég held að bransinn þurfi alveg aðeins að melta þetta, af því þetta er alveg tvíbent. Annars vegar setur maður spurningarmerki við að það sé verið að taka katalóginn og að erlendur aðili sé að kaupa hann en í því geta líka falist tækifæri, það má heldur ekki gleyma því. Þetta er bara hreinlega trendið allt í kringum okkur að svona safnist saman, hvað sem mönnum finnst um það,“ segir Bragi Valdimar í samtali við blaðamann Fréttablaðsins.
Með kaupum flyst masterréttindi
Skilmálar kaupsamningsins liggja ekki nákvæmlega fyrir en ljóst er að með kaupunum flyst upptöku-og útgáfuréttur, svokölluð masterréttindi, á stórum hluta íslenskrar tónlistarsögu yfir til erlendra aðila. Bragi Valdimar ítrekar þó að hér sé ekki verið að selja höfundarrétt tónlistarinnar.
„Þetta er náttúrlega allt bundið í einhverjum samningum og það er aðallega þá masterréttindin sem er verið að sýsla með, verðmætin liggja í þeim. Það er ekki verið að selja höfundarréttinn eða eitthvað slíkt. Þannig að fyrir STEF, sem eru bara að sýsla með höfundarréttinn, þá í raun og veru getur þetta þess vegna verið jákvætt. Að það sé verið að opna leiðir fyrir tónlistarfólk til að koma sínum verkum á framfæri og allt það.“
Kemur í ljós hvað þetta hefur mikil áhrif á íslenska tónlist
Bragi segir það eiga eftir að koma í ljós hvaða áhrif sala upptökuréttar á svo miklu magni íslenskrar tónlistar muni hafa á tónlistarbransann. Alda Music hefur á undanförnum árum tryggt sér upptöku- og útgáfurétt á stærstum hluta íslenskrar tónlistar en fyrirtækið keypti til að mynda öll útgáfuréttindi Senu árið 2016. Að sögn Braga er um að skýra þróun í þessa átt að ræða í alþjóðlegu samhengi.
„Eignarhald og eignarhald, þetta liggur í einhverjum samningum. Það er náttúrlega búið að safna þessu saman úr mörgum áttum, inn í Öldu eru hin og þessi útgáfufyrirtæki í gegnum tíðina sem einhvern veginn enda í þessu. Þetta er náttúrlega búið að vera svolítið trendið að þessi sjálfstæðu forlög hafa tilhneigingu til að safnast á endanum saman,“ segir Bragi en bætir við að enn standi þó hellingur af íslenskri tónlist fyrir utan þessa samsteypu sem tónlistarmennirnir eigi þá útgáfuréttinn að sjálfir.
Þú semur lag og þú átt lagið
Spurður um hvernig hann myndi útskýra muninn á upptökurétti og höfundarrétti segir Bragi Valdimar:
„Þú semur lag og þú átt lagið, skráir það í STEF eða sambærilega innheimtu og þá átt þú bara þinn höfundarrétt og færð greitt fyrir texta og lag, hvernig sem því er skipt. Lagið er svo tekið upp, það er sett á hljóðrit, og þá er það í raun og veru hljóðritið, masterinn og grunneintakið, sem liggur til grundvallar allri dreifingu. Það er svo önnur summa sem er greidd bara fyrir notkunina af því eins og streymisveitu og svoleiðis og þar skiptist það í flytjendur og útgefendur. Svo eru það höfundarnir og STEF rukkar fyrir höfundagjöldin.“
Þorvaldur S. Helgason. 2022, 24. janúar. Salan á Öldu Music stórmál í útgáfusögunni: „Þetta er alveg tvíbent.“ Fréttablaðið.