Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð á vettvang um kvöldmatarleytið í gær þegar kona kom heim til sín og fann þar fyrir aðra konu. Sú var búin búin að klæða sig í föt húsráðanda.
Náði húsráðandi að koma óboðna gestinum út af heimilinu en tók síðar eftir því að veski og fleira var horfið. Málið er í rannsókn lögreglu.
Stuttu seinna var tilkynnt um skemmdarverk í borginni en þar hafði verið stungið með eggvopni í hjólbarða þriggja bifreiða. Atvikið mun hafa átt sér stað í póstnúmeri 105 um helgina, að því er segir í dagbók lögreglu.
Þá var 17 ára ökumaður stöðvaður á 111 km/klst á Reykjanesbraut og samband haft við forráðamann. Þess utan voru nokkrir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum og án ökuréttinda.