Maður sem braut rúðu í miðborginni iðraðist og gaf sig fram við lögreglu. Tilkynnt hafði verið um rúðubrotið en skömmu síðar kom hinn brotlegi til lögreglu og gerði hreint fyrir sínum dyrum. Málið afgreitt með skýrslu.
Nóttin var róleg eftir fagnaðarlætin og slagsmálin sem urðu víða um höfuðborgarsvæðið um helgina. Eitt útkall varð vegna líkamsárásar í heimahúsi.
Þá var drukkinn ofbeldisseggur handtekinn, grunaður um eignaspjöll, brot á lögreglusamþykkt og hótanir í garð fólks. Sá var töluvert ölvaður og ekki annað til ráða en að læsa hann inni í fangaklefa þar sem hann sefur nú á gúmmídýnu. Hann mun þurfa að rifja upp brot sín þegar hann vaknar.
Tveir ökumenn voru á ferðinni í nótt undir áhrifum. Báðir voru handteknir og færðir til skýrslutöku og tekin ur þeim lífssýni en sleppt að því loknu.