Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Brenglað þegar fólk getur breytt sér í símanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslendingar eru farnir að leita til lýtalækna með síaðar, eða filteraðar, sjálfur (selfie) og vilja líta út eins og sín síaða sjálfa. Íslenskur lýtalæknir segir þessa þróun skapa vanda.

„Það er til í dæminu að fólk komi með mynd af sér sjálfu sem búið er að ýkja eða breyta en það er mjög sjaldgæft enn þá, sem betur fer. En ég held að þessum tilvikum eigi eftir að fjölga,“ segir Ágúst Birgisson lýtalæknir.

Ágúst Birgisson.

Fréttasíðan Huffington Post fjallaði nýverið um þá staðreynd að fólk vestanhafs, helst konur, væri farið að leita til lýtalækna með síaðar, eða filteraðar, sjálfur og vill líta út eins og síaða sjálfan. Í greininni var þetta fyrirbæri kallað Snapchat Dysmorphia sem mætti þýða sem Snapchat-lýtaröskun.

Ágúst segir þessa þróun skapa vanda, þar sem síur á samfélagsmiðlum gefa ekki rétta mynd af því sem hægt er að gera þegar lagst er undir hnífinn. „Þetta skapar vanda því þegar þú ert að breyta myndum á samfélagsmiðlum eða öðrum forritum, þá ertu ekki að gera raunverulega áætlun. Þannig að í raun er verið að vekja væntingar umfram það sem hægt er að gera, og það er kannski mitt vandamál. Það er erfitt þegar einstaklingur er með ímynd af því hvernig hann vill vera en þessi ímynd verður ekki að raunveruleika því ekki er hægt að framkvæma breytingarnar. Það er helsta vandamálið. Við lýtalæknar styðjumst við forrit þar sem við getum breytt fólki til að sýna því hvernig það lítur út fyrir og eftir aðgerð en þau forrit eru sérstaklega gerð fyrir lýtalækna. Þegar fólk getur breytt sér sjálft í símanum er þetta orðið mjög brenglað,“ segir hann.

Sýna myndir af þekktum Snapchat-konum

Ágúst vill ítreka að það sé afar sjaldgæft að fólk mæti til hans með síaðar sjálfsmyndir af samfélagsmiðlum en algengara er að fólk komi með myndir af frægu fólki til að sýna hvernig það vilji líta út.

„Það er mjög algengt, til dæmis í sambandi við brjóstastækkun eða eitthvað svoleiðis. Þá eru konur með ákveðna hugmynd um hvernig þær vilja líta út og hvaða stærð þær vilja fara upp í. Þær koma með mynd af einhverri stjörnu og vilja fá eitthvað svipað, sem getur verið hjálplegt til að finna út hverju fólk er að leita eftir. Mynd segir oft mörg orð. En auðvitað er pínulítið öðruvísi að sjá þetta á öðrum en á sjálfum sér og fólk er meðvitað um það. Það gerir sér grein fyrir að þetta er annar líkami en sinn eigin og því verður þetta ekki eins. Þar liggur helst munurinn á því að sýna mynd af öðrum en ekki mynd af sjálfum sér.“

Kim Kardashian síaði sjálfu með barni sínu fyrir stuttu.

Annar lýtalæknir, Guðmundur M. Stefánsson, segir sífellt meira bera á þessu meðal ungra kvenna. „Það hefur borið á því síðustu ár, einkum meðal ungra kvenna, að sumar þeirra leita álits okkar á breytingum sem þær óska eftir og sýna myndir af þekktum Snapchat-konum sem þær vilja líkjast. Þetta er ekki algengt, en þó ber meira og meira á þessu.“

- Auglýsing -

Líkamslýtaröskun ótrúlega sjaldgæf

Eftir tilkomu snjallsíma hefur því verið haldið fram að notkun samfélagsmiðla gæti leitt til líkamslýtaröskunar, eða body dysmorphic disorder. Einstaklingar sem þjást af þessari röskun eru mjög uppteknir af ákveðnum líkamshlutum og þrá oft á tíðum að láta laga þá á einhvern hátt. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt fram á að 1,7% til 2,4% þjóðarinnar séu haldin þessari röskun.

Ágústi finnst ótrúlegt að líkamslýtaröskun sé ekki algengari samfara aukinni snjallsímanotkun. „Body dysmorphic disorder er ótrúlega sjaldgæft miðað við alla þá umfjöllun og þá miðla sem við höfum. Þessi röskun var til löngu áður en snjallsímar komu til sögunnar en mér finnst ekki mikil aukning á þessum sjúkdómi með snjallsímavæðingu, sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt.“

Hann segir að þó að mikið sé talað um að fólk sem leiti til lýtalæknis þrái að líta út eins og einhver allt annar, þá séu flestir sem leiti til lýtalækna að gera það vegna dýpri ástæðna. „Fólk kemur til lýtalækna út af mjög mismunandi þörfum og leitar að allt öðru en að líkjast einhverjum fyrirmyndum úti í heimi. Það getur verið að augnlok séu of þung og þurfi að laga það, að brjóst hafi horfið við meðgöngu eða brjóstagjöf eða að konur séu með slappan maga eftir fjórar meðgöngur eða mikið þyngdartap. Þessar ýkjur sem talað er um eru sem betur mjög sjaldgæfar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -