Breskum manni var vísað frá Bandaríkjunum eftir 24 tíma vist í fangaklefa vegna textaskilaboða til bandarískrar kærustu sinnar. Í skilaboðunum gaf hann til kynna að hann vilji flytja til hennar.
Þetta töldu bandarísk yfirvöld merki þess að hann hefði í hyggju að vera lengur í Bandaríkjunum en hann hafi heimild til. Isaac Roblett og kærastan Camila Iglesia höfðu mánuði áður átt í samskiptum á WhatsApp þar sem hann sagðist vera að flytja vegna hennar.
Roblett sagði á móti að hann væri að tala um þriggja mánaða dvöl með ESTA-heimild sem hann hafi. Honum er nú óheimilt að snúa aftur til Bandaríkjanna.
Breska blaðið Metro segir parið hafa hafa verið saman í rúmt ár. Þau hittust þega Iglesia stundaði nám í Bretlandi. Þá kemur fram í fréttinni að hann hafi áður heimsótt hana í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir að sambandið sé nokkuð flókið nú þegar honum er óheimilt að heimsækja hana í Bandaríkjunum hyggst parið reyna áfram.