Aðfaranótt 10 maí árið 1940 urðu lögregluverðir og aðrir nátthrafnar í Reykjavík, varir við flugvél sem sveimaði yfir borginni. Stuttu síðar sigldu fjögur bresk herskip inn sundin og lögðust á ytri höfnina. Klukkan var fjögur um nóttina. Fljótlega rann upp fyrir fólki ljós. Búið var að hertaka Ísland.
Tíminn sagði frá atburðum næturinnar daginn eftir og var ljóst að Ísland yrði aldrei samt. Bretarnir gengur mjög hratt og hreint til verks og á undrahraða voru þeir búnir að handtaka þá þjóðverja sem þeir náðu í og setja upp varðstöðvar víða og loka á öll samskipti út á við. Fer Tíminn mildari höndum um Bretana en miðlar eins og Þjóðviljinn á þessum tíma sem kallaði hernámið „gerræði brezka hervaldsins.“ Hér fyrir neðan má lesa brot úr frétt Tímans um málið:
„Bretar hertaka Ísland
Enska stjórnin lofar því að láta herliðið hveria héðan strax og styrjöldinni lýkur og
að hafa engin afskipti af innanlandsmálum
Stjórn Íslands mótmælti hertökunni
Hinir þýðingarmiklu og sögulegu atburðir, sem gerðust hér í gær, fóru í aðalatriðum fram á þessa leið: Klukkan 3.45 í fyrrinótt urðu lögreglumenn, er á verði voru í Reykjavík, og bæjarbúar, sem enn voru á ferli, varir við flugvél á sveimi yfir bænum. Litlu síðar sigldu fjögur brezk herskip hér inn sundin og lögðust á ytri höfnina klukkan 4. Voru það tvö beitiskip og tveir tundurspillar. Eftir nokkurt hringsól yfir bænum settist flugvélin í
grennd við herskipin. Reyndust tvær sjóflugvélar vera með í förinni. Rétt um kl. 5 í gærmorgun sigldi annar tundurspillirinn inn á innri höfnina og lagðist við hafnarbakkann framan við skipaafgreiðslurnar. Stigu þá af skipsfjöl allmargir smáflokkar hermanna, er þegar dreifðust um bæinn. Tóku þeir sér varðstöðu við ýmsar byggingar og á gatnamótum. Brezku ræðismennirnir hér tóku á móti herliðinu við landgöngubrúna.
Fáliðuð sveit hermanna, um 25 manns, tók bústað þýzka ræðismannsins við Túngötu þegar á sitt vald, en fólk það, er þar var, til fanga. Var ræðismaðurinn og fjölskylda hans og starfslið flutt á skipsfjöl siðar um morguninn. Áður en brezku hermennirnir réðust til inngöngu í ræðismannsbústaðinn höfðu þeir nokkurn viðbúnað úti fyrir. Þykir líklegt, að ræðismanninum hafi, meðan á þessu stóð, unnizt tími til að eyðileggja plögg og skjöl, er hið þýzka starfslið ógjarna vildi láta falla í hendur óvinanna, því að vart varð reykjar í einni stofu bústaðarins. Fyrverandi aðalræðismaður Breta hér var í för með löndum sínum við töku bústaðarins. Að lokinni hertöku hússins komu Englendingar fyrir senditækjum í garðinum úti fyrir og héldu um hríð stöðugu skeytasambandi við herskipin. Einkabifreið þýzka ræðismannsins stóð í fyrri nótt á Túngötunni móts við Landakotsspítalahn. Stóð hún þar óhreyfð í allan gærdag. En í gærkvöldi seint komu enskir hermenn, tóku hana og óku henni brott. Þá réðust herflokkar til inngöngu í þau gistihús bæjarins, er Þjóðverjar bjuggu í, svo sem Herkastalann, Hótel Heklu og Hótel Ísland. Voru hinir þýzku menn, er þar fundust, teknir til fanga og fluttir niður á hafnarbakka, og síðan í annað beitiskipið.
Margir Þjóðverjar voru handteknir annars staðar í bænum, flestir á heimilum sínum eða
dvalarstöðum, en nokkrir annars staðar, þar sem þeir höfðu leitað sér, hælis eða jafnvel
freistað undankomu. Var öðru hvoru um morguninn verið að koma með slíka fanga á vörubílum niður á hafnarbakka. Einn Þjóðverja tóku Bretar til dæmis höndum austur í Svínahrauni, og mjög fljótt eftir landgöngu fyrstu liðsveitanna voru bifreiðar sendar austur að Litla Hrauni að sækja þýzka menn, er þar voru í haldi.
Við töku gistihúsanna viðhöfðu brezku hermennirnir ýmsar varúðarráðstafanir, komu vélbyssum fyrir í grennd við þau, eins og þeir byggjust við mótspyrnu, og biðu þess albúnir að hefja skothríð, ef til þyrfti að taka. Borið mun það hafa við að Íslendingar, er bjuggu á þeim gistihúsum, þar sem Þjóðverjarnir voru flestir, væri einnig teknir höndum og fluttir niður á hafnarbakka. En er við nánari eftirgrennslan kom í ljós að um Íslendinga var að ræða, voru þeir látnir lausir og beðnir afsökunar á óþægindunum, er þeim voru bökuð.
Þjóðverjar þeir, sem handteknir voru, munu hafa skipt hundruðum, enda mun í þeim hópi hafa verið nær allir þýzkir menn, er hér voru. Örfáir Þjóðverjar munu þó hafa sloppið hjá
handtöku. Landsímahúsið var brotið upp af brezkum hermönnum nálægt kl. 5.15 og tóku þeir þar aðsetur í afgreiðslusölunum og var fáum eða engum Íslendingum leyft að koma í húsið, útvarp simtöl og skeytasendingar út úr bænum bannaðar. Símtöl innanbæjar
leyfð. Kl. 3 í gærdag var starfsfólki leyfður aðgangur að símastöðinni og símasamband komst á um allt land. Um sama leyti voru salarkynni útvarpsins einnig fengin í hendur starfsliði þess. Við allar benzíngeymslur og olíustöðvar voru varðmenn skipaðir og einnig var pósthúsið þegar tekið á vald hersveitanna. Hafnarhúsið var gert að bráðabirgðabækistöð landgönguliðsins. Hótel Ísland var tekið í þágu hjúkrunarsveita, er á land voru settar, og flutt þangað hjúkrunartæki ýmiskonar, sjúkrabörur, lyf og annað þess háttar. Síðar um daginn flutti hjúkrunarliðið bækistöðvar sínar í íþróttahús f. R. við Túngötu. Við loftskeytastöðina var einnig sett herlið. Hingað og þangað um bæinn
voru hermenn á verði við ýms götuhorn og höfnina. Öll umferð út úr bænum var skjótlega
bönnuð í nokkrar klukkustundir og fámennar sveitir tóku sér varðstöðu á Hafnarjarðarveginum utan í hálsinum, skammt sunnan við Fossvogsbrúna, og á Suðurlandsbrautinni á Elliðaárbrú. Var þar grannur kaðall með rauðu merki strengdur yfir brúna, en hermenn gættu. Einnig var varðlið sett við flugskýlið í Vatnagörðum og umferð bönnuð um brautina niður að skýlinu. Eftir fáar stundir var bifreiðaumferð leyfð um vegina út frá Reykjavík, en brezkir varðmenn höfðu gát á ferðum manna, aðgættu fólk og farangur í bifreiðum og viðhöfðu svipaða varúð, sem von gæti verið óvina. Er á daginn leið, varð þó eftirlit varðmanna ekki jafn strangt.
Undir eins og hinar fyrstu hersveitir voru stignar á land, var ávarp frá yfirforingja herleiðangurs fest upp á ýmsum stöðum í bænum og úthlutað meðal vegfarenda. Ávarp þetta eða tilkynning hljóðaði svo, orðrétt og stafrétt:“
Tíminn birti svo tilkynningu Breta í heild sinni en athygli vekur hversu kurteisi Bretinn er og ætti það svo sem ekki að koma neinum á óvart, þeim sem þekkja til þjóðarinnar. Hér má lesa tilkynninguna:
„TILKYNNING.
Brezkur herlíðsafli er kominn snemma í dag á herskipum og er núna í borginni. Þessar rádstafanir hafa verið gerðar bara til þess að taka sem fyrst nokkrar stöður og að verða á undan Þjóðverjum. Við Englendingar ætlum að gera ekkert á móti Íslenzku landsstjórninni og Íslenska fólkinu, en við viljum verja Íslandi örlög, sem Danmörk og Norvegur urðu fyrir.
Þessvegna biðjum við yður að fá okkur vinsamlegar viðtökur og að hjálpa okkur. Á meðan við erum að fást við Þ0jóðverja, sem eru búsettir í Reykjavík eða annarstaðar á Íslandi, verður um stundar sakir bannað
(1) að útvarpa, að senda símskeyti, að fá símtöl.
(2) að koma inn í borgina eða að fara út úr henni fyr nokkra klukkantíma.
Okkur þykir leiðinlegt að gera þetta ónæði; við biðjumst afsökunar á því og vonum að það
endist sem fyrst.
R. G. STURGIS, yfirforingi“