Fimmtudagur 2. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Brexit ferlið er rétt að byrja: Hinar raunverulegu samningaviðræður bíða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Michael Mann, sendiherra ESB, telur að Bretland muni á endanum ganga úr Evrópusambandinu þótt möguleiki á annarri þjóðaratkvæðagreiðslu hafi aukist. Hann minnir á að ferlið sé rétt að byrja því stærsta samningalotan sé enn eftir, það er hvernig sambandi ESB og Bretlands verði háttað í framtíðinni.

Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu er búin að vera í margra mánaða sjálfheldu á meðan Bretar reyna að komast að niðurstöðu um hvaða leið eigi að fara. Í þrígang hefur þingið fellt útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra, og nú standa yfir viðræður við Verkamannaflokkinn um einhvers konar lausn áður en reynt verður í fjórða skiptið. Þá herma fréttir frá Bretlandi að svo kunni að fara að May muni fallast á aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mann, sem sjálfur er frá Bretlandi, segist þó enn fullviss um að útganga verði að veruleika. „Fólk utan Bretlands sagði lengi við mig að Brexit myndi aldrei verða að veruleika, að þetta væri algjört brjálæði og myndi aldrei gerast. Ég hef þó alltaf verið sannfærður um að þetta yrði að veruleika vegna þess að Bretar eru afar þrjóskir og jafnvel þótt þeir viti að þetta muni skilja þá eftir í verri stöðu en ella, þá eru þeir ákveðnir í að virða vilja fólksins. En á síðustu vikum hefur þróunin orðið þannig að það er möguleiki á að Brexit verði ekki að veruleika.“

„Ég hef þó alltaf verið sannfærður um að þetta yrði að veruleika vegna þess að Bretar eru afar þrjóski.“

Vísar Mann þar til endurtekinna tilrauna May til að koma samningnum í gegn og að Bretar séu nægilega skynsamir til að ganga ekki úr sambandinu án samnings. Þá séu Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, sem báðir töpuðu fylgi í nýafstöðnum sveitastjórnarkosningum, að reyna að sækja fylgi þeirra sem vilja aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ég held samt að Brexit verði að veruleika en það er smá von um að almenn skynsemi ráði yfirhöndinni. En ég set mína peninga enn á Brexit gerist á þessu ári.“

Mann segist að nokkurrar óþreyju sé farið að gæta í Brussel vegna þess hversu tvístígandi Bretar hafa verið í ferlinu. Hann undrast það viðhorf sem fram hefur komið að ESB sé á einhvern hátt að refsa Bretum fyrir að ganga út úr sambandinu enda séu það Bretar sem hafa dregið lappirnar.

„Ef maður byrjar samningaviðræður er ágætt að gera upp við sig áður hvað maður vill fá út úr þeim. Ráðamenn í Brussel eru ekki enn búnir að átta sig á því hvað Bretar vilja fá út úr viðræðunum vegna þess að þingið og þjóðin eru klofin. Bretland hefur kosið að yfirgefa sambandið. Margir stjórnmálamenn sem töluðu fyrir útgöngu gáfu til kynna að það væri hægt að fara en viðhalda sömu réttindum eftir sem áður. Þetta er eins og að hætta að borga aðildina í líkamsræktarstöðinni en mæta samt á hverjum degi og nota aðstöðuna. Það virkar ekki þannig,“ segir Mann og bætir við:

„Það má heldur ekki gleyma því að þetta er ekki hinn endanlegi samningur, þetta er útgöngusamningurinn. Hinar raunverulegu samningaviðræður hefjast þegar Bretland gengur út og byrjar að semja um fyrirkomulagið til framtíðar. Það verður mun flóknara ferli.“

- Auglýsing -

Eru fyrst núna að átta sig á hvað ESB er

Mann segir að ástæðan fyrir Brexit liggi að mörgu leyti í því hvernig stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafi talað um Evrópusamstarfið í gegnum árin. Breskir stjórnmálamenn hafi aldrei talað máli Evrópu ólíkt mörgum kollegum sínum á meginlandinu. „Þvert á móti var Evrópa hentugur blóraböggull fyrir breska stjórnmálamenn og þegar eitthvað slæmt gerðist var það Brussel að kenna og ef eitthvað gott kom þaðan var það vegna tilstilli þeirra.“

Sama máli gegnir um fjölmiðla, segir Mann og talar hann þar af reynslu því hann var um árabil talsmaður tveggja breskra framkvæmdastjóra.

- Auglýsing -

„Flestir fjölmiðlar í Bretlandi eru andsnúnir Evrópusambandinu. Ég varði miklum tíma í að fást við bresku pressuna, að hrekja einhverja algjöra vitleysu sem hafði verið birt. Hlutir sem kunna að vera fyndnir eins og þetta með bognu bananana. En það er í rauninni ekki fyndið því þetta síast inn í hausinn á fólki. Þessar furðufréttir götublaðanna kunna að vera skemmtilegar en þær hafa mjög neikvæð áhrif á þekkingu fólks og að ætla að leiðrétta það í tveggja mánaða kosningabaráttu var óraunhæft. Það liggur fyrir að margir af helstu talsmönnum Brexit fóru frjálslega með sannleikann og því miður voru margir sem töluðu máli Evrópu ekki með hjartað á réttum stað. Við þetta bætist að á sama tíma og þjóðaratkvæðagreiðslan átti sér stað voru flóttamannamálin í hámarki og fólki var sagt að allir íbúar Tyrklands myndu koma og búa í Bretlandi. Margir trúðu því.“

„Þessar furðufréttir götublaðanna kunna að vera skemmtilegar en þær hafa mjög neikvæð áhrif á þekkingu fólks.“

Segir Mann að það sé fyrst núna sem alvöru umræða sé að eiga sér stað um Evrópusambandið.

„Það hefur aldrei verið umræða um ESB í Bretlandi nema þegar einhver deilumál koma upp og þá sett í þann búning að Bretar standa í stappi við ESB. Það var mikil götublaðastemning, jafnvel á meðal virtu miðlanna. Það er aðeins núna þegar Bretland er að ganga út úr sambandinu að það á sér stað einhver umræða um hvað ESB er og hvað það er ekki. Það er mjög sorglegt því þessi umræða átti að fara fram fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna og þá sætum við kannski ekki uppí í þessari stöðu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -