Ljósmyndari frá Nairobi í Kenýa, sem gengur undir nafninu Muchiri Frames, ákvað að búa til mjög sérstaka ljósmyndaseríu í tilefni af Valentínusardeginum, sem var fagnað í febrúar síðastliðnum eins og venja er.
Muchiri kynntist heimilislausum manni í garði í Nairobi sem heitir Sammy, og gengur einnig undir nafninu Blackie. Ljósmyndarinn spurði hann einfaldlega hvort hann hefði einhvern tímann verið ástfanginn og þá byrjaði Sammy að lýsa kærustu sinni.
Sammy kynntist kærustu sinni á götum Nairobi, en þau eru bæði heimilislaus. Fyrst urðu þau góðir vinir, en vináttan þróaðist síðan í ástarsamband. Sammy talaði svo vel um sína heittelskuðu að Muchiri ákvað að gefa parinu yfirhalningu gegn því að fá að taka af þeim myndir.
Parið fór í hárgreiðslu og förðun og fékk glæný föt til að klæðast, en með myndunum vildi Muchiri koma á framfæri að það sé ekki hægt að dæma bók eftir kápunni.
„Undir skítnum, tötrunum og ófáguðum talsmáta eru fallegir einstaklingar sem myndu þrífast í þessum heimi eins og við hin ef þeir fengju tækifæri til,“ skrifar Muchiri á heimasíðu sína og bætir við:
„Ástin mismunar ekki fólki og hér er sönnun þess.“
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af myndunum úr seríunni en allar myndirnar má skoða á heimasíðu Muchiri.