Líf Maríu Hlínar Eyjólfsdóttur tók stakkaskiptum eftir að hún leitaði sér aðstoðar.
Fyrir fimm árum var María Hlín Eyjólfsdóttir illa á sig komin og undirlögð af verkjum. Hún ákvað að leita sér aðstoðar til að brjótast úr ástandinu og hefur með dugnaði, elju og skynsemi náð undraverðum árangri.
„Mikilvægast af öllu er að halda í gleðina. Að missa aldrei sjónir af henni. Ef mér hefði ekki tekist að halda í hana í gegnum þetta allt þá veit ég hreinlega ekki hvernig þetta hefði farið. Kannski hefði ég bara gefist upp,“ segir María Hlín Eyjólfsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Jöklaborg.
Fyrir fimm árum tók María ákvörðun um að breyta um lífsstíl eftir að hafa glímt við ofþreytu og verki um langt skeið. Hún skellti sér í heimsókn til Heilsuborgar en í stað þess að undir-gangast heilusmat hjá hjúkrunarfræðingi og láta skoða mataræði, hreyfinu og svefn eins og margir gera, skráði hún sig í Heilsulausnir – hóptíma þar sem lögð er áhersla á alhliða hreyfingu.
„Auðvitað var ekkert grín að byrja,“ játar hún. „Ég hafði ekki stundað neina hreyfingu lengi og var í engu formi, gat varla gengið og leið illa með sjálfa mig. Fyrir utan að ég var með alls konar verki. Meðal annars krónískan höfuðverk vegna gamalla meiðsla á hálsi. En ég var staðráðin í að gefast ekki upp og fékk góða hvatningu frá þjálfurum og þátttakendum á námskeiðinu.“
„Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma …. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“
Í samráði við þjálfarana segist María hafa ákveðið að gera allar breytingar rólega. Hún mætti til dæmis í ræktina þrisvar í viku til að byrja með á meðan hún var að koma því upp í vana og tók mataræðið smám saman í gegn og var ekkert að mæla árangurinn í lækkaðri fituprósentu heldur bættri líðan. „Með öðrum orðum var ég ekkert að umturna lífi mínu með einhverjum öfgum,“ segir hún. „Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma. Allt á að gerast á einu bretti. Eins og í Biggest Looser. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“
Ekki leið á löngu þar til María fór að verða vör við breytingar á sjálfri sér. Á einu ári varð hún líkamlega hraustari en hún hafði verið um langt skeið og það sem meira er: andleg líðanin tók stakkaskiptum. Hún hélt því áfram með skynsemina að leiðarljósi og fimm árum síðar kveðst hún vera allt önnur en þegar hún steig fyrst inn á stöðina illa á sig komin og undirlögð af verkjum.
„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega. Reyndar fæ ég enn höfuðverki af og til en með reglulegri hreyfingu hefur mér tekist að draga úr þeim,“ segir hún og kveðst enn stunda hóptímana af fullum krafti. Að auki er hún byrjuð að hlaupa og fara í fjallgöngur á sumrin til að brjóta upp rútínuna.
„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega.“
Spurð hvort hún eigi einhver ráð handa fólk sem er í svipuðum sporum og hún var sjálf í segir María að fyrsta skrefið sé að leita sér aðstoðar. „Taktu skrefið og fáðu hjálp. Faglega hjálp. Það er ekkert að því. Ég veit það getur verið erfitt. En treystu mér, það margborgar sig,“ segir hún glaðlega.
Texti / Roald Eyvindsson