„Ég hataði allt við sjálfa mig og það var erfið staða að vera í,“ segir hin 31 árs gamla Katie Bolden í viðtali við tímaritið People. Tímaritið gaf nýverið út aukablað um fólk sem hefur lést um helming af líkamsþyngd sinni, og er Katie ein þeirra.
Þegar Katie var þyngst var hún tæplega 130 kíló. Venjuleg kvöldmáltíð fyrir hana var heil, stór pítsa og franskaskammtur. Hún hafði reynt ýmsa megrunarkúra á fullorðinsárum en ekkert virkaði, en Katie var einnig illa haldin af kvíða og þunglyndi.
Það var síðan í nóvember árið 2010 að hún var greind með fjölblöðrueggjastokka heilkenni, sem þýddi að það yrði henni erfitt að eignast barn.
„Þetta voru hræðilegar fréttir, því mig hafði dreymt um að vera móðir öll fullorðinsárin. Ég vissi alltaf að mig langaði í fjölskyldu með eiginmanni sínum,“ segir Katie í samtali við People. Það var hins vegar ekki fyrr en hún fór að finna fyrir sjóntruflunum og var greind með MS þremur árum síðar að hún ákvað að breyta lífsstíl sínum.
„Ég fylltist eldmóði. Ég var svo hrædd við að geta hugsanlega ekki gengið eða séð í framtíðinni. Ég gerði mér grein fyrir því að ég var bara að eyða lífinu mínu og það var kominn tími til að gera eitthvað og byrja að lifa lífinu,“ segir Katie.
Átján kíló í einum mánuði
Katie byrjaði á því að nota smáforritið MyFitnessPal til að fylgjast með hve margar kaloríur hún innbyrti yfir daginn og hve mikið prótein hún var að borða. Hægt og rólega hætti hún að borða skyndibitamat og byrjaði að ganga og synda reglulega. Það var hins vegar ekki tekið út með sældinni að breyta um lífsstíl og reyndist það henni afar erfitt til að byrja með.
„Fyrsta vikan var erfið. Ég var svöng, ég var sólgin í mat. En eftir nokkrar vikur byrjaði ég að sjá árangur og það hélt mér gangandi. Ég léttist mikið fyrstu mánuðina, til dæmis átján kíló í einum mánuði.“
Á góðum stað í dag
Fyrsta árið léttist Katie um 34 kíló og náði þá að verða ólétt af sínu fyrsta barni. Fimm mánuðum eftir barnsburð byrjaði Katie að æfa á ný og þremur og hálfu ári eftir að hún hóf lífsstílsbreytinguna var hún búin að léttast um tæplega sjötíu kíló.
Og viti menn, hún fékk fulla sjón á ný og er ekki lengur með fjölblöðrueggjastokka heilkenni. Hún er enn með MS sjúkdóminn, enda er hann ekki afleiðing af þyngdinni, en hún finnur ekki mikið fyrir einkennum sjúkdómsins.
„Ég horfi til baka á allt sem ég gerði og hugsa: Gerði ég þetta í alvörunni? Ég veit að ég er á góðum stað, líkamlega og andlega, því ég var með ofboðslega mikinn kvíða en fór samt út og gerði þetta,“ segir Katie.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af Katie þar sem hún opnar sig um þessa vegferð sem hefur komið henni á betri stað í lífinu.
Texti / Lilja Katrín
[email protected]