Pistill eftir Tobbu Marinósdóttur
Vikan sem leið var líklega með þeim klikkaðri í þónokkurn tíma á mínu heimili og er ég nú sjaldanst „hefðbundin“. Við sambýlismaður minn ætlum að gifta okkur 19. september á Ítalíu – sem er ekki frásögu færandi nema fyrir það að ég féll í þá gryfju sem ég lofaði sjálfri mér og móður minni að gera ekki. Ég breyttist í Bridezillu. Lét gabbast af þeirri mýtu að ég yrði að umbreyta sjálfri mér fyrir brúðkaupið. Helst þannig að sambýlismaður minn í næstum áratug myndi ekki þekkja mig.
Þar sem ég sit nú ofan á sárkvalinni og þrútinni ferðatösku og hamra á lyklaborðið geri ég mér grein fyrir að ég hef misst vitið. Vonandi tímabundið.
Síðustu viku hef ég átt í mesta basli með að pissa ekki á mig á almannafæri. Nú síðast í morgun þegar mjög almennilegur snyrtifræðingur hleypti mér fram á salernið í einnota brókinni (sem enginn ætti að þurfa að klæðast, aldrei) til að forða sér frá „the golden shower“.
Stöðugt þvaglát er sum sé hvimleit afleiðing þess að taka djúsföstur í von um að ná kjörþyngd á stjarnfræðilegum hraða. Að pissa stanslaust er svo sem í lagi geti maður hangið heima hjá sér allan daginn. En það getur Bridezilla ekki. Hún þarf auðvitað að fara í ræktina (í tvöfaldan tíma), plokkun, litun, vax, fórsnyrtingu, nærfataleiðangur, klippingu og strípur, hvítun, brúnkun, neglur og ýmislegt annað. Kalli hinsvegar fór í göngutúr og klippingu og er tilbúinn! Aldrei litið betur út. Helv..
„Stöðugt þvaglát er sum sé hvimleit afleiðing þess að taka djúsföstur…“
Ji, og ekki gleyma útréttingunum. Ófáar ferðir í Systra grenið til að kaupa borða og kerti og allskonar mjög mikilvægt skreytingarefni. Já, auðvitað fylli ég eina og eina ferðatösku af útikertum og allskonar glingri því ég hef tímabundið gleymt reiðakalls emoji-num og kreppta hnefanum sem brúðkaupsskipuleggjandinn á Ítalíu sendi mér í morgun með ekki svo vinsamlegum tilmælum um að hætta að láta senda Amazon pakka heim til hennar!
Sem ég geri klárlega ekki því ég hef misst vitið.
Og hvað gerir Bridezilla þegar allt heimilið leggst í flensu, yngsta barnið er með 40 stiga hita (og þar með ekki í dagvistun) og mamman er orðin ansi tætt eftir svefnlausa nótt, stöðugar klósettferðir, drum n’ bass garnagaul og ansi sárar harðsperrur? Jú, hún trítar sig með rauðvínsglasi! Á tóman maga. Snarhressist og pantar nokkrar auka seríur og confettiblöðrur og allskonar eitthvað annað í pastellitum sem rennur saman í ljósinu á tölvuskjánum um miðja nótt. Tekur því að fara að sofa? Stutt í að ungabarnið vakni og fyrra flugið af tveimur á leiðnni til Ítalíu er í fyrramálið. Tannkulið eftir hvíttunargelið heldur líka fyrir mér vöku.
Og hvernig planar maður brúðkaup milli landa, gætuð þið spurt? Jú, með tölvu, rauðvínsflösku og Pinterest! Svo er bara að vona að þetta verði ekki „nailed it“ útgáfa af brúðkaupi. Ég hef nú þegar komið mér í töluverð vandræði við að panta blómin: „3 x pink butthole flowers.“ Takk auto correct.
Nú eru innan við tvær vikur í brúðkaup. Hvað ætli sé það versta sem getur gerst?