Flugfélagið Play er svo sannarlega í meðvindi þessa dagana. Farsælt útboð skilaði þeim milljörðum króna og þúsundir manns hafa bókað sig í áætlunarflug félagsins. Sýnt er að þjóðin tekur þessu nýja lággjaldaflugfélagi opnum örmum. Þá er greinilegt að ferðaþyrst þjóðin hyggst fara til útlanda á næstu mánuðum.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir við Morgunblaðið að félagið hafa selt tugþúsundir flugsæta. Búið sé að selja í annað hvert flugsæti í júlí en síðan sé þéttbókað í haust.
Play hefur áætlanaflug til Berlínar í dag og á næstu þremur vikum bætist við fjórir nýir áfangastaðir.
Gott gengi Play er ekki síst athyglisvert í því ljósi að forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands beittu sér af hörku gegn félaginu og lögðust gegn því að fjárfest yrði eða ferðast með félaginu. Play stefnir á það að komast í svipaða markaðsstöðu og Wow sem varð gjaldþrota eftir gríðarlega uppsveiflu.