Félag lýtalækna í Bandaríkjunum er búið að gefa út tölur yfir fjölda lýtaaðgerða árið 2017 þar í landi. Hafa vinsældir þeirra aukist örlítið á milli ára, eða um tvö prósent.
Vinsælasta lýtaaðgerðin vestan hafs er brjóstastækkun, en alls voru rúmlega þrjú hundruð þúsund brjóstastækkunaraðgerðir framkvæmdar árið 2017. Þess má geta að 11% fleiri brjóstaminnkunaraðgerðir voru framkvæmdar í Bandaríkjunum árið 2017 miðað við árið 2016.
Í öðru sæti er fitusog, en tæplega 250 þúsund slíkar aðgerðir voru framkvæmdar á síðasta ári, 5% meira en árið 2016. Nefaðgerðir verma síðan þriðja sætið, en rétt tæplega 220 þúsund slíkar aðgerðir voru framkvæmdar árið 2017.
Í fjórða sæti eru aðgerðir á augnlokum og í fimmta sæti eru svuntuaðgerðir svokallaðar.
Í tölum félagsins er einnig tekið fram að minni aðgerðum hafi fjölgað umtalsvert, en þá er verið að tala um hluti eins og Botox-sprautur og önnur fyllingarefni. Slíkum aðgerðum fjölgaði um tvö hundruð prósent á milli ára og af þeim 17,5 milljónir aðgerða sem framkvæmdar voru árið 2017 voru sextán milljónir þeirra minni aðgerðir eins og varafyllingar og Botox.